Fréttir
  • Klæðingavinna á Krýsuvíkurvegi (42).

Rangfærslur um klæðingar

Leiðrétting vegna skrifa í Bændablaðinu

18.12.2020

Vegna skrifa í Bændablaðinu um verklag við yfirlagnir með klæðingum og þróun þess undanfarin ár er rétt að leiðrétta rangfærslur.

Alrangt er að vetrarblæðingar hafi ekki verið vandamál þegar white spirit var notað en ekki lífolía.  Árið 2002,  löngu áður en farið var að nota lífolíu í klæðingar, kom út skýrsla hjá Vegagerðinni um vetrarblæðingar en þá var eingöngu notað white spirit. Af þessari skýrslu má glöggt sjá að vetrarblæðingar voru þá eins og nú vandamál sem kom reglulega upp og tengdust þá eins og nú veðurfarslegum þáttum.

White spirit er hættulegt umhverfinu  og auk þess er það einnig talið hættulegt mönnum sem vinna með efnið, sérstaklega þegar það er hitað upp í það hitastig sem þarf til að leggja klæðingar. Þá verður uppgufun efnisins hraðari og þéttari og getur mönnum stafað hætta af. White spirit er líka mjög eldfimt. Við þetta háa hitastig getur myndast sprengihætta við notkun á því við vegagerð. Á Írlandi var notkun white spirit í klæðingar bönnuð eftir að banaslys varð þegar að tankur með heitu bindiefni, blandað white spirit, sprakk með fyrrnefndum afleiðingum. Það þarf því ekki að fjölyrða um það að notkun slíkra efna  er ekki ásættanleg í nútímanum.

Það er ekki svo að Vegagerðin sé að finna upp hjólið við gerð bundinna slitlaga heldur styðst stofnunin við aðferðir sem hafa verið reyndar bæði hér og víða um heim. Engin sú þjóð sem bindur slitlag á vegum gerir það án  áskorana. Hver aðferð hefur kosti og galla. Tilkoma klæðinga gerði það að verkum að Íslendingar gátu flýtt því að bundið slitlag kæmist á þjóðvegakerfið en við það bættust aðstæður gríðarlega. Sú staðreynd að klæðingar eru ekki án galla eins og við höfum nýverið upplifað breytir ekki þeirri heildarniðurstöðu. Vitað er að í dag eru vegir á þjóðvegakerfinu þar sem brýnt er að leggja malbik í stað klæðingar enda þolir það mun meiri og þyngri umferð.  Áfram verður unnið að því að lengja þessa kafla eins og kostur er.