Fréttir
  • Jón Rögnvaldsson starfaði undir stjórn fjögurra vegamálastjóra og var sjálfur sá fimmti. Hann hefur upplifað tímana tvenna í vegagerð. Mynd/SóGí
  • Vegagerðarmenn í spurningakeppni sjónvarpsins vorið 1987. Frá vinstri talið: Jón Erlendsson Akureyri, Jón Rögnvaldsson Reykjavík og Elís Þorsteinsson Búðadal.  Mynd/Guðmundur Heiðreiksson.
  • Jón situr fyrir á snjóbungu í mars 1974.
  • Þrír vegamálastjórar og stytta af þeim fjórða. Frá vinstri eru Helgi Hallgrímsson, Jón Rögnvaldsson og Hreinn Haraldsson en brjóstmyndin er af Geir G. Zoega. Mynd/VAI
  • Jón og Helgi Hallgrímsson. Myndin tekin í tilefni af því að Jón var gerður að heiðursmeðlimi NVF, norræna vegasambandsins.
  • Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Jón klippa á borða við opnun Norðausturvegar um Tjörnes árið 2004. Mynd/VAI
  • Jón og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opna Almannaskarðsgöng árið 2005. Mynd/VAI
  • Jón með Hreini Haraldssyni þegar sá fyrrnefndi var

Ótrúlegar framfarir í vegagerð

Jón Rögnvaldsson starfaði undir stjórn fjögurra vegamálastjóra og var sjálfur sá fimmti. Hann hefur upplifað tímana tvenna í vegagerð.

25.11.2019

Jón Rögnvaldsson fyrrverandi vegamálastjóri varð áttræður á árinu. Hann minnist tíma síns hjá Vegagerðinni með mikilli hlýju enda starfaði hann þar í 44 ár og gott betur ef með eru talin sumrin í unglingavinnunni og vinnan meðfram háskóla.

Jón er fæddur og upp alinn á bænum Flugumýrarhvammi í Skagafirði. Foreldrar hans voru Skagfirðingar, faðir hans hreinræktaður í báðar ættir en móðirin að hluta upprunnin úr Dalasýslunni. „Í Flugumýrarhvammi vorum við með kýr, kindur og hross. Það var prýðilegt að alast upp í sveitinni. Ég las helling þegar ég var krakki, tók þátt í sveitastörfunum og lék mér við krakka á næstu bæjum þegar færi gafst en ég átti mikið af frændfólki þarna,“ segir Jón en þau voru tvö systkinin á bænum, hann og eldri systir.

Jón á enn góða tengingu í Skagafjörðinn en systursonur hans og fjölskylda búa á Flugumýrarhvammi í dag. „Svo á ég gríðarlega mikið af frændfólki í sveitinni.“

Að heiman í skóla 14 ára

Jón gekk í sveitaskóla, Akraskóla sem starfræktur var á Stóru-Ökrum. „Þar tók ég fyrsta árið í gagnfræðaskólanum en fór síðan á Sauðárkrók 14 ára gamall. Þar leigði ég hjá góðu fólki í tvo vetur og tók landspróf. Eftir það lá leiðin til Akureyrar í menntaskóla. Þar var ég í fjögur ár á heimavist og líkaði það mjög vel, enda myndaðist hálfgerð fjölskyldustemning. Þarna eignaðist ég vini sem ég á enn í dag.“

Jón útskrifaðist af stærðfræðideild MA og fór þá beint í byggingaverkfræði í tækniháskólann, Technische Hochschule, í Stuttgart í Þýskalandi. „Mér hundleiddist fram að áramótum en eftir það líkaði mér ljómandi vel. Sama má segja um námið. Það var hundleiðinlegt fyrst og fór svo smábatnandi,“ segir hann glettinn.

Íslendingasamfélagið var nokkuð stórt í borginni. „Við fórum býsna margir úr bekknum mínum í MA í verkfræði og margir til Þýskalands, þar af nokkrir í sama skóla og ég. Þá voru líka nokkrir úr öðrum árgöngum MA í skólanum. Við Íslendingarnir, sem höfum verið á þriðja tug, héldum mikið saman, líklega allt of mikið. Sama átti við Norðmennina en þessir tveir hópar áttu líka í miklum samskiptum,“ segir Jón og telur að þetta hafi orðið til þess að hann lærði þýskuna hægar en hann hefði annars gert. „Líka vegna þess að Norðmennirnir vildu ekkert tala nema norsku, og ég var því nauðbeygður til að læra hana á sama tíma,“ segir hann hlæjandi. Námið, sem allt fór fram á þýsku, gekk þó vel.

Í vegavinnu um fermingu

Tengsl Jóns við Vegagerðina hófust snemma. „Ég átti frænda sem var vegaverkstjóri, Gísla heitinn Gottskálksson kennara, og byrjaði í vegavinnu um fermingu. Vann á tipp og þess háttar. Síðan fór ég í brúarvinnu í nokkur sumur, fyrst hjá Þorvaldi Guðjónssyni og eitt sumar hjá Jónasi Snæbjörnssyni,“ rifjar hann upp. Jón vann síðar einnig með syni Jónasar, Snæbirni Jónassyni vegamálastjóra og sonarsyni, Jónasi Snæbjörnssyni sem í dag er forstöðumaður þróunarsviðs. „Um tíma vann sonur Jónasar yngri einnig hjá Vegagerðinni og þá gerði ég mér grein fyrir að ég hlyti að vera búinn að vinna ógurlega lengi hjá Vegagerðinni enda farinn að vinna með fjórða ættliðnum,“ segir hann og brosir kankvíslega.

Brúarvinnan hjálpaði við brúarhönnun

Jón kom heim tvisvar á ári meðan hann var í námi í Þýskalandi. „Þar er kerfið öðruvísi en hér heima. Þá voru tvö löng frí yfir árið, þrír mánuðir á sumrin og tveir á veturna. Þá kom ég heim til að vinna. Fyrsta fríið vann ég í saltfiskverkun í Vestmannaeyjum en eftir það var ég hjá Vegagerðinni.“

Jón starfaði á tæknideildinni í fríunum og fór fljótt að teikna brýr undir stjórn Árna Pálssonar yfirverkfræðings brúa. „Þetta voru nú flest litlar og vondar brýr, allar einbreiðar og vonandi búið að farga þeim öllum,“ segir hann en bætir við að það hafi gagnast honum mikið að hafa verið í brúarvinnu þegar hann hóf að hanna brýr.

Þegar Jón lauk námi haustið 1964 fór hann að vinna sem verkfræðingur hjá tæknideildinni og hannaði áfram brýr, en þó sífellt stærri. „Því miður voru þær flestar einbreiðar, þó ekki alveg allar. Til dæmis var brúin á Dýrastaðaá í Norðurárdal tvíbreið. Því miður eru enn í notkun eitthvað af einbreiðum brúm sem ég hef teiknað. Ég get nefnt sem dæmi Jökulsá á Sólheimasandi sem er orðin hálfgerður vandræðagripur.“

Bjó í bíl á sumrin

Eftir tvö ár við brúarhönnun var Jón ráðinn umdæmisverkfræðingur á Vesturlandi en starfið fólst í því að hafa yfirumsjón með framkvæmdum á Vesturlandi. „Þá var ekki komin föst búseta með starfinu og á sumrin bjó ég því meira og minna í bíl á flakki um landið.“

Lítið hafði verið um stór verkefni hjá Vegagerðinni frá því Keflavíkurvegurinn var byggður á árunum 1960 til 1965. „Um 1970 var tekið lán hjá Alþjóðabankanum, sett aukið fé í vegaframkvæmdir og komið í gang stórum vegagerðarverkefnum á borð við veginn yfir Hellisheiði og veg upp í Kollafjörð. Á sama tíma var sett upp formlegri deildaskipting hjá Vegagerðinni og ég fór inn á áætlanadeild sem var í hönnun, að svo miklu leiti sem hún var ekki unnin af verkfræðistofum. Þetta var í fyrstu kallað brautadeild, með tilvísun í hraðbrautir, því þessir vegir þóttu miklar hraðbrautir miðað við eldri vegi, þó þeir þættu það ekki í dag.“

Þessir vegir út frá Reykjavík þóttu mikið stórvirki í vegagerð og segir Jón miklar breytingar hafa orðið í vinnubrögðum með tilkomu þeirra. „Eftir þetta átak varð aftur dálítil lægð í vegagerð en menn reyndu að pota einhverjum kílómetrum hér og þar. Þó voru nokkur stór verkefni á áttunda áratugnum á borð við Borgarfjarðarbrúna. Framkvæmdir gengu hægt fram undir 1980 þegar aðferðin með bundnu klæðingarnar kom til, þá fór þetta fyrst að ganga eitthvað í kílómetrum.“

Jón hefur sannarlega lifað tímana tvenna í vegagerð. „Þó manni hafi alltaf fundist ganga hægt og að aldrei væru til nægir peningar, eru breytingarnar gríðarlegar. Þegar maður horfir á hvernig vegakerfið leit út árið 1980 þá er ótrúlegt að að sjá hvernig það lítur út í dag. Það hefur í raun orðið alger bylting í vegakerfinu á tæpum fjörutíu árum.“

Í gegnum háskóla án þess að sjá tölvu

Þegar Jón byrjaði á áætlanadeildinni 1970 var frumvinna mikið til unnin innan Vegagerðarinnar en síðan tóku verkfræðistofurnar við. „Áður en verkfræðistofurnar komu að þessum verkefnum hafði allt verið unnið miðlægt hjá Vegagerðinni. Og raunar fór hönnun gömlu malarveganna mikið til fram í mörkinni. Þá var gengið um, menn stungu niður prikum og svo voru aðrir sendir á staðinn til að hallamæla og setja vegútlínur. Útreikningar í tölvum voru óþekktir,“ lýsir Jón og bendir á að hann hafi farið í gegnum allt sitt háskólanám án þess að sjá nokkurn tíma tölvu. „Að því leiti er ég forngripur.“

Hann man vel eftir fyrstu tölvu Vegagerðarinnar. „Hún var notuð í veghönnun. Þetta var dálítill skápur, frekar hávær og leiðinlegur í sambúð. Áður hafði þó verið notuð háskólatölvan við alls konar útreikninga. Hún gekk fyrir gataspjöldum og maður þurfti að fara með gatastokka vestur á Mela og vita hvað kæmi út úr því.“

Gott að kynnast landi og fólki

Jón starfaði á áætlanadeildinni í nokkur ár, varð síðar forstöðumaður tæknisviðs þangað til hann varð aðstoðarvegamálastjóri upp úr 1990 þegar Jón Birgir Jónsson fór úr þeirri stöðu til að gerast ráðuneytisstjóri. „Það starf fólst í því að vinna með vegamálastjóra, Helga Hallgrímssyni. Hluti starfsins var að sinna svæðunum úti á landi,“ segir Jón en á þessum tíma var hann mikið á ferðinni um landið. „Þetta var mjög góð leið til að kynnast vegakerfinu og ekki síður til að kynnast því góða fólki sem starfaði um allt land. Oft vöknuðu góðar hugmyndir á ferðum mínum og maður fékk tilfinningu fyrir því hvernig staðan væri á vegakerfinu.“ Í lok sumars fór Jón iðulega í langar reisur um landið með Eymundi Runólfssyni og Guðmundi Arasyni og öfluðu þeir sér upplýsinga um vegakerfið.

Vann undir stjórn fjögurra vegamálastjóra

Jón varð vegamálastjóri 2003, sá fimmti í röðinni. „Vegamálastjórar hafa ekki verið margir og í raun má segja að ég hafi unnið undir stjórn allra forvera minna. Geir Zoega var nefnilega vegamálastjóri þegar ég var í sumarvinnunni sem unglingur. Ég hafði nú engin kynni af honum en starfaði síðar með Sigurði Jóhannssyni, Snæbirni Jónassyni og Helga Hallgrímssyni sem ég tók við af þegar hann hætti vegna aldurs.“

Jón fann ekki fyrir miklum breytingum á sínum högum þegar hann varð vegamálastjóri. „Ég hafði unnið upp undir tíu ár með Helga og vissi út á hvað starfið gekk.“

Í stöðugu sumarfríi

Jón lét af störfum sem vegamálastjóri vorið 2008. „Ég hafði heyrt einhvern í útvarpinu segja að maður ætti að hætta inn í sumarið, og ég gerði það. Ég fór því í sumarfrí er ennþá í því,“ segir hann brosandi. „Svo má segja að ég hafi hætt algerlega á toppnum enda var búið að vera mikið góðæri. Þá um haustið fór allt til fjandans og ég viðurkenni að ég var feginn að þurfa ekki að takast á við allt sem því fylgdi.“

Hann minnist Vegagerðarinnar með mikilli hlýju. „Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað samstarfsfólkið var gott enda hefði maður sjálfsagt ekki verið svona lengi hjá stofnuninni nema af því andrúmsloftið var afskaplega notalegt.“

Jón lætur sér ekki leiðast. „Ég held góðu sambandi við mína kunningja, hitti skólafélaga úr MA og fyrri vinnufélaga sem ég geng með einu sinni í viku. Ég hef spilað badminton lengi og geri það einu sinni í viku, meðal annars með núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Vegagerðarinnar. Ég er nú reyndar orðinn elstur af spilurunum.“

Afmæli í kyrrþey

Jón er giftur Ásdísi Björnsdóttur og saman eiga þau tvö börn, Björn Jónsson sem starfar á upplýsingatæknideild Vegagerðarinnar og Bryndísi Jónsdóttur sem starfar við mannauðs- og ráðningamál. Hann á einnig þrjá dóttursyni sem hann snýst í kringum. „Sá elsti er reyndar farinn að skutla sér sjálfur, en þeim yngri skutla ég í íþróttir og annað.“

Þau Ásdís hafa verið lengi saman, kynntust meðan hann var í háskóla í Stuttgart og byrjuðu að búa eftir að hann kom heim úr námi. Í dag búa þau í Garðabænum en þar hafa þau verið í um fimmtíu ár. „Við fluttum hingað 1970 og erum frumbyggjar í götunni. Vinur minn, Haukur Viktorsson, teiknaði húsið en verkfræðihlutann sá ég sjálfur um. Það tókst ágætlega en þó ekki að öllu leiti. Ég þarf að skamma verkfræðinginn öðru hverju,“ segir hann og hlær. Hann segir þau hjónin afar heimakær. Þau þurfi engan sumarbústað enda jafnist húsið þeirra á við besta sumarhús. Í kringum húsið er gríðarstór garður sem þau hjónin sinna af mikilli natni. „Ásdís hefur miklu grænni fingur, en ég er ágætur í garðslættinum.“

Jón varð áttræður 19. febrúar á þessu ári en segir tilstandið hafa verið lítið. „Það má segja að ég hafi orðið áttræður í kyrrþey,“ segir hann glettinn.