Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin samanlagt
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Óbreytt umferð á höfuðborgarsvæðinu í október

Umferðin stóð í stað eða svo gott sem

3.11.2022

Umferðin í október á höfuðborgarsvæðinu reyndist nánast sú sama og í október í fyrra, en hún jókst um 0,1 prósent. Ólíkt Hringveginum er ekki útlit fyrir að umferðarmetið frá árinu 2019 verði slegið í ár á svæðinu en búast má við að í heild verði umferðin 2022 um einu prósenti minni en metárið 2019.

Milli mánaða 2021 og 2022
Umferðin, í þremur lykilmælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, í nýliðnum októbermánuði reyndist svo gott sem á pari við sama mánuð á síðasta ári en einungis 0,1% aukning mældist. Þannig að strangt til tekið var sett nýtt umferðarmet í október á höfuðborgarsvæðinu.

Umferðin jókst aðeins í einu mælisniði eða um Hafnarfjarðarveg um 0,6%.  Mælisnið á Reykjanesbraut og á Ártúnsbrekku stóðu svo til í stað með 0,0% og 0,1% samdrátt.

Frá áramótum
Núna hefur umferðin aukist um 1,6% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.

Umferð vikudaga
Umferð jókst alla virka daga í nýliðnum október borið saman við sama mánuð á síðasta ári, en dróst saman um helgar.  Mest jókst umferðin á miðvikudögum eða um 1,7% en dróst mest saman á sunnudögum eða um 4,1%.

Mest var ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum.

Horfur út árið 2022
Nú stefnir í að umferðin, á höfuðborgarsvæðinu, aukist um rétt tæpt 1% miðað við árið 2021.  Gangi þessi spá eftir mun umferðin samt sem áður verða um 1% undir gamla metinu frá árinu 2019.