Fréttir
  • Kort sem sýnir framkvæmdasvæðið.
  • Berufjarðará til mót svið Vagnabrekku. Ný veglína á hægri mynd.
  • Tafla yfir helstu breytingar á veginum.
  • Berufjarðará til móts við Vinárneshjalla. Ný veglína á hægri mynd.
  • Berufjörður, Vagnabrekka. Ný veglína á hægri mynd.
  • Vegamót við Skriðdals- og Breiðdalsveg - ný veglína á hægri mynd.
  • Berufjörður, Bunkuvellir. Ný veglína á hægri mynd.
  • Berufjarðará til móts við Innri-Viná - ný veglína á hægri mynd.
  • Berufjörður, Víðineshjalli - ný veglína á hæri mynd.

Nýr vegur um Öxi

Umfjöllun í Framkvæmdafréttum

17.3.2022

Samvinnuverkefni um nýjan veg yfir Öxi verður boðið út á árinu. Í byrjun febrúar var haldinn fundur um verkefnið þar sem framkvæmdin var kynnt auk þess sem farið var yfir skilgreiningu samvinnuverkefna og hvernig staðið verður að útboðsferli verkefnisins. 

Samvinnuverkefni eru skilgreind sem verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun opinbers mannvirkis, í heild eða að hluta, eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri þess, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Í lögum um samvinnuverkefni kemur fram að Vegagerðinni er heimilt, að undangengnu útboði, að gera samning við einkaaðila um ákveðin verkefni. Þessi verkefni eru sex talsins; Hringvegur um Hornafjörð, Axarvegur, Hringvegur um Mýrdal, brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabraut. Hringvegur um Hornafjörð hefur þegar verið boðinn út, en næst er ætlunin að bjóða út Axarveg og brú yfir Ölfusá.

Axarvegur fer í svokallað samkeppnisútboð. Það hefst á markaðskönnun þar sem óskað er eftir yfirlýsingu frá áhugasömum í gegnum útboðsvef. Rætt er við hvern þessara aðila, einn í einu og farið yfir hvernig þeir sjái fyrir sér ýmsar hliðar verkefnisins. Reiknað er með að viðræðurnar taki nokkrar vikur. Í apríl er svo ætlunin að bjóða verkið út og þá hugsanlega með einhverjum áorðnum breytingum varðandi atriði sem fram koma í viðræðum við aðila. Óskað er eftir gögnum frá aðilum, þar sem þeim ber að gera grein fyrir ýmsum þeim atriðum sem gerðar eru kröfur um, svo sem; reynslu, sambærileg verk, fjárhagsstöðu og fleira. Ákveðið er í framhaldinu hversu margir aðilar teljast hæfir/hæfastir til að bjóða í verkið og þeim aðilum boðið að senda inn upphafstilboð. Í framhaldi af upphafstilboði tekur við samráðsferli, sem getur tekið allt að þrjá mánuði. Tilgangur þessa samráðsferlis er að kanna hvort aðilar telji að hægt sé að standa að verkinu með einhverjum öðrum hætti, en útboðsgögn tilgreina og fá með þeim hætti fram hagkvæmni bæði fyrir verktaka og verkkaupa. Að lokum skila aðilar inn endanlegu tilboði sem ræður vali verktaka.

Útboð Axarvegar er nokkuð viðamikið þar sem gert er ráð fyrir að bjóða út verkhönnun, framkvæmd, fjármögnun og loks rekstur og viðhald til allt að 30 ára. Nákvæm útfærsla þessara þátta er hluti af því sem farið er yfir í samráðsferlinu.

Framkvæmd Axarvegar

Þótt verkhönnun sé boðin út hefur verið unnin mikil vinna innan Vegagerðarinnar við frumdrög og forhönnun verksins. Axel Viðar Hilmarsson verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar fór á kynningarfundinum yfir helstu atriði framkvæmdarinnar.

Axarvegur (939) liggur um samnefnda heiði, Öxi. Í dag er vegurinn hlykkjóttur malarvegur en verður eftir framkvæmd tveggja akreina vegur, klæddur bundnu slitlagi og mun liggja frá Skriðdals- og Breiðdalsvegi (95) að tengingu við Hringveg (1) hjá Berufjarðarbrú.  

Markmið framkvæmdarinnar er að gera veginn greiðfærari og bæta til muna umferðaröryggi. Vegurinn verður uppbyggður svo snjór safnist síður á hann og þar með aukast líkur þess að hægt verði að hafa hann opinn allt árið, en í dag er vegurinn lokaður yfir snjóþyngstu mánuðina. Veglínan verður beinni, beygjur ekki eins krappar og langhalli að hámarki 8% í stað 21% nú.

Axarvegur kemur til með að liggja hæst í um 520 metra hæð yfir sjávarmáli, eins og núverandi vegur. Breidd vegarins verður 8 metrar, en er í dag um 5 upp í 7 metra. Minnsti beygjuradíus verður 171 metri en er í dag 30 metrar sem er mjög krappt. Lengd vegarins verður 20,1 km en er í dag 21,6 km. Styttingin skýrist af því að nýi vegurinn verður mun beinni en sá gamli. Skiltaður hámarkshraði verður 90 km/klst. en er í dag 80 km/klst. Þó verður leiðbeinandi hraði lægri í beygjum og brekkum.

Vegamót verða tvenn, við Breiðdalsheiði og Berufjarðarbrú. Vegtengingar verða tvær, við Foss í Öxará og við Ódáðavötn. Áningarstaðir verða tveir, við Vinárneshjalla og Folaldafoss. Gert er ráð fyrir tveimur keðjuplönum við Skriðuvatn og Bunkuvelli, Berufjarðarmegin. Þegar liggur fyrir að brúað verður á einum stað, en hugsanlegt er að brúað verði á fleiri stöðum í stað ræsa. Verkhönnun mun leiða í ljós hvar hagkvæmt er að brúa. Gert er ráð fyrir að stór ræsi, þvermál 2 metrar eða meira, verði á um tíu stöðum á leiðinni og flest þeirra Breiðdalsmegin.

Heildarefnisþörf jarðefna er áætluð rétt tæplega 1,4 milljónir rúmmetra, en gert er ráð fyrir að stærstur hluti eða um 60% komi úr skeringum í vegstæði og um 40% komi úr námum sem eru 15 talsins.

Umferð um Öxi var um 224 bílar að meðaltali á sólarhring samkvæmt talningu árið 2019 (ÁDU). Meðaltalsumferð á sólarhring á sumrin var 483 bílar, en lítil umferð er um Öxi að vetri, enda vegurinn lokaður í marga mánuði. Spá fyrir árið 2050 gerir ráð fyrir talsverðri fjölgun bíla eða í um 630 bíla á sólarhring að meðaltali yfir árið (ÁDU), en að meðaltalsumferð á sólarhring að sumri verði um 970 bílar (SDU).

Áætlaður framkvæmdatími er 3 ár. Vonir standa til að framkvæmdir hefjist vorið 2023.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Framkvæmdafrétta 2022 sem er á leið til lesenda.  Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.