Fréttir
 • Ferðavenjur sumarkönnun Land-ráð 2014
 • Hlutur einkabílsins
 • Ferðamáti

Aðrir ferðamátar en einkabílinn sækja á

samkvæmt viðhorfskönnun um ferðir að sumri sem Land-ráð sf. vann fyrir Vegagerðina

20.11.2014

Þeim fjölgar sem fara ferða sinna gangandi, hjólandi eða með strætó á höfuðborgarsvæðinu. Jafnmargir ferðast á einkabíl sumarið 2014 og gerðu 2012 eða 75 prósent en þeir voru 87 prósent árið 2007. Þetta er ein af mörgum niðurstöðum í viðhorfskönnun Land-ráðs sf um sumarferðir 2014.


Eins og sést á línuriti sem fylgir fréttinni þá ferðuðust 87 prósent yfirleitt með einkabíl á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 og fækkar þeim jafnt og þétt til ársins 2012 þegar 75 prósent ferðast með einkabíl sem er sama hlutfall og í ár. 

Einnig sést að ríflega 8 prósent ferðast á hjóli samanborið við 5 prósent árið 2010 og einungis 2 prósent árið 2008. Þá fara núna 7,6 prósent með strætisvögnum en voru 4 prósent 2010 og 5 prósent 2008. Nú fara tæp 6 prósent fótgangandi en þeir voru jafnmargir eða 6 prósent 2010 og 3 prósent 2008.

Könnunin er unnin fyrir styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og má finna hana og aðrar rannsóknaskýrslur hér á vefnum sem og aðrar kannanir Land-ráðs. Sjá rannsóknaskýrslur, til dæmis þessa nýjustu Sumarferðir 2014 og samsvarandi könnun frá 2010 Sumarferðir 2010.

Helstu niðurstöður eru annars þessar:

Ferðir út fyrir sveitarfélag.
 • Heldur dró úr meðalfjölda ferða út fyrir búsetusvæðið sumarið 2014 borið saman við fyrri kannanir. Sérstaklega á þetta við um ferðir frá höfuðborgarsvæðinu.
 • Notkun einkabílsins er heldur að dragast saman og fleiri ferðast sem farþegar í bíl.
 • Um 8% svarenda notaði Strætó í ferðum út fyrir búsetusvæði og var meðalfjöldi ferða 4,5.
 • 11% svarenda töldu að fjöldi erlendra ferðamanna sumarið 2014 hafi haft áhrif á ferðavenjur sínar. Alengast var að svarendur sögðust hafa forðast fjölsótta ferðamannastaði.
 • Flestir vilja sjá fleiri jarðgöng á landsbyggðinni, umbætur á hringveginum og bætta almenningsvagnaþjónustu.

Innanlandsflug.
 • Töluvert hefur dregið úr innanlandsflugi miðað við fyrri kannanir. Svarendur í landsbyggðarkjörnum nota innanlandsflug að jafnaði 4,4 sinnum og íbúar höfuðborgarsvæðis 0,9 sinnum.
 • Um 62% svarenda vill ekki flytja miðstöð innanlandsflugs úr Vatnsmýri. Sama á við 54% svarenda á höfuðborgarsvæði og 51% Reykvíkinga.
 • Flestir þeirra sem heimsækja höfuðborgarsvæðið eiga erindi vestan Elliðaárvogar, sérstaklega í miðborginni.

Ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu.
 • Meðalferðatími er að lengjast á höfuðborgarsvæðinu. Er tæplega 13 mínútur sumarið 2014.
 • Notkun einkabílsins hefur verið að dragast saman úr 87% allra ferða 2007 í 75% 2014.
 • Svarendur sem búa í eða nærri miðborginni bæði ganga og hjóla meira en aðrir svarendur á höfuðborgarsvæðinu.
 • Þeir sem nota meira aðra ferðamáta en einkabílinn 2014 ganga og hjóla meira en áður. Tæp 8% nota yfirleitt Strætó.
 • Flestir svarendur á höfuðborgarsvæðinu vilja sjá aukna áherslu á umbætur á stofnbrautakerfinu, bætta þjónustu Strætó og umbætur á göngu- og hjólaleiðum.
 • Áhersla á umbætur á stofnbrautakerfinu hefur minnkað frá 2007 þegar flestir nefndu þann kost, en er vaxandi samkvæmt könnun 2014.