Fréttir
  • Páll Blöndal tekur við viðurkenningunni

Viðurkenning frá ESRI fyrir Vegasjána

upplýsingatæknideild Vegagerðarinnar heiðruð í San Diego

12.8.2014

Upplýsingatæknideild Vegagerðarinnar hlaut á dögunum viðurkenningu ESRI fyrir framúrskarandi vinnu með GIS-tækni. Fyrst og fremst er um að ræða lausnir fyrir Vegasjá Vegagerðarinnar. Páll Blöndal tók við viðurkenningunni í San Diego í Bandaríkjunum.

Árið 2005 var upplýsingatæknideildinni falið að sjá um veggagnabanka Vegagerðarinnar.  Þá var veggagnabankinn af gerðinni IsVis og hafði ekki náð ásættanlegri fótfestu innan Vegagerðarinnar. 

Upplýsingatæknideild byrjaði á því að skoða stöðu mála og greina stöðu veggagnabanka.  Niðurstaðan varð sú að ákveðið var að gera nýjan veggagnabanka og var ákveðið að semja við Samsýn um hugbúnaðargerð og hugbúnaðarþróun á nýjum veggagnabanka.  Verkefnið byrjaði haustið 2007 og var notast við tækni frá ESRI. 

Hugbúnaðarlausnir sem byggja ofan á veggagnabankann voru síðan skrifaðar af starfsmönnum upplýsingatæknideildar.  Lausnirnar byggðu á ESRI hugbúnaði og undirliggjandi veggagnabanka. 

Frá árinu 2008 hafa starfsmenn upplýsingatæknideildar skrifað og innleitt á annan tug GIS veflausna fyrir ytri og innri vef Vegagerðarinnar. 

Í maí 2014 fékk Páll Blöndal boð frá ESRI um að taka við viðurkenningu fyrir hönd upplýsingatæknideildar Vegagerðarinnar fyrir framúrskarandi vinnu með GIS-tækni  (e: „outstanding work with GIS technology“) á notendaráðstefnu ESRI í júlí s.l. sem haldin var í San Diego í Bandaríkjunum.  Viðurkenningin var fyrst og fremst veitt fyrir Vegasjána á ytri vef og þau innri kerfi sem starfsmenn upplýsingatæknideildar hafa skrifað með kortalausnum sem byggðu á GIS-tækni frá ESRI.

Þessi verkefni hafa verið þungamiðjan í verkefnum upplýsingatæknideildar á undanförnum árum og er deildin stolt af afrakstrinum.   Ýmsir fleiri komu að þessum verkefnum og er þeim þökkuð liðveisla við framgang þeirra, en hér er um víðfema teymisvinnu að ræða sem þurfti að ganga upp til að ná þessum framúrskarandi árangri.  

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Páll Blöndal taka við viðurkenningunni úr hendi Jack Dangermond.