Fréttir
  • Vetrarþjónusta

Mistök áttu sér stað

Þegar ekki var farið að óskum lögreglu við Moldhaugnaháls

29.1.2014

Rétt viðbrögð við óskum lögreglu um að Hringvegurinn þar sem hann liggur um Moldhaugnaháls vestan við Akureyri yrði hálkuvarinn hefði verið að gangast í málið vegna þeirra aðstæðna sem þarna voru í gærkvöldi. Það voru mistök að verða ekki við þeim óskum. Það er hinsvegar rétt að mikill halli er á vetrarþjónustunni sem Vegagerðin berst við að ná niður. 

Vegagerðin hefur átt gott samstarf við lögregluna og vill bregðast við þegar lögreglan óskar sérstaklega  eftir því að vegir verði hálkuvarðir vegna aðstæðna. Enda hafa Vegagerðin og lögreglan farið yfir það sameiginlega að ekki sé eftir því kallað nema brýna nauðsyn beri til. Þetta hefur verið óskráð regla en nú verður farið betur fyrir verklagið til að reyna að tryggja að slík mistök gerist ekki aftur.

Það er líka ástæða til að brýna enn og aftur fyrir vegfarendum að hálka getur myndast skyndilega og við því þurfa ökumenn að vera viðbúnir. Ökumenn stærri bíla þurfa að vera því viðbúnir að nauðsynlegt getur verið að setja keðjur undir bílinn og eigendur fólksbíla verða að huga að ástandi hjólbarða og augljóslega eiga sumardekk ekkert erindi í umferðinni á Íslandi að vetri til.

Þá er rétt að minna á að það er einungis á umferðarmestu vegum í nágrenni höfuðborgarinnar sem er sólarhringsþjónusta. Á Hringveginum þar sem flughált varð seint í gærkvöldi er þjónusta til kl. 22:00. Eigi að síður hefði átt að bregðast við þessum sérstöku aðstæðum. Vegagerðin leggur áherslu á að farið sé eftir snjómokstursreglum í vetrarþjónustunni en gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt getur verið að sveigja þær reglur komi upp sérstakar aðstæður og meti lögreglan svo að ástandið sé hættulegt.