Fréttir
  • Nýr Álftanesvegur

Álftanesvegur og dómstólar

hvers vegna ekki er gerlegt að bíða niðurstöðu dómstóla

23.9.2013

Gerð nýs Álftanesvegar hefur tekið langan tíma og hefur flest verið kært sem hægt hefur verið að kæra. Þannig hefur ítrekað reynt á gildi umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Reynt hefur verið að fá lögbann á framkvæmdina en sýslumaður synjaði beiðninni vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. 

Höfðuð hafa verið tvö dómsmál sem nú eru í gangi og telja margir eðlilegt að Vegagerðin stöðvi framkvæmdir meðan dómsmál eru í gangi og bíði niðurstöðu þeirra. Annars vegar hefur ákvörðun sýslumanns um synjun verið kærð og hinsvegar hefur Vegagerðinni verið stefnt á þeirri forsendu að framkvæmdin sé ekki lögleg.

Ef fallist yrði á að stöðva framkvæmdir myndi það í fyrsta lagi hafa í för með sér að Vegagerðin yrði að greiða skaðabætur enda er búið að bjóða verkið út, opna tilboð og skrifa undir verksamning við verktaka. Allt samkvæmt eðlilegum framgangsmáta í vegagerð.

Jafnframt  væri um leið verið að fallast á það að hægt væri að stöðva allar framkvæmdir á meðan á dómsmálum stendur, standi hugur manna til þess. Þannig gæti sú staða auðveldlega komið upp varðandi Álftanesveginn að að loknum þessum dómssmálum, kæmu önnur dómsmál. Sumir íbúar Prýðishverfis, sem liggur við veginn, eru ósáttir við veglínuna og vilja hana lengra út í hraunið. Ef að loknum núverandi dómsmálum yrði kært á þeirri forsendu að vegurinn væri of nálægt byggðinni, ætti þá aftur að stöðva framkvæmdir? Hvar gæti það endað? Fleiri gætu haft ýmislegt annað við framkvæmdina að athuga, svo sem gengur og gerist, og því væri endalaust hægt að höfða dómsmál til að stöðva framkvæmdir.

Einnig verður að líta til tímans sem dómsmál tekur. Þeir sem vilja nýjan Álftanesveg hafa nú mátt bíða árum saman eftir þeim vegabótum. Óskað hefur verið eftir því af hálfu lögbannsbeiðenda að fengið verði álit EFTA dómstólsins að þvi hvort aðilar eigi lögvarða hagsmuni að kröfu um lögbann. Það tekur, til viðbótar við annað, hið minnsta marga mánuði að fá niðurstöðu í slíku mál. Síðan væri hægt að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar o.s.frv. Erfitt er að sjá hvenær vænta mætti endanlegrar niðurstöðu dómstóla, bara í því máli.

Hitt málið um lögmæti framkvæmdanna gæti tekið enn lengri tíma. En þar er ekki tekist á um annað en formsatriði þ.e.a.s. lögmæti matsins á umhverfisáhrifunum og framkvæmdaleyfisins. Svo að jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að umhverfismatið og/eða framkvæmdaleyfið yrði fellt úr gildi þýddi það einungis að fara þyrfti aftur í mat á umhverfisáhrifum og ekki við öðru að búast en að niðurstaða þess yrði sú sama of fyrri mata. Sú leið myndi því einungis tefja framkvæmdina, en ekki koma í veg fyrir hana.

Meginregla íslensks réttarfars er að höfðun dómsmáls frestar ekki framkvæmdum.