Fréttir
  • Umferðin yfir Hellisheiði

Gríðarlega margir yfir Hellisheiði á laugardaginn

Blómstrandi dagar líkleg skýring

19.8.2013

Mikil aukning varð í umferðinni yfir Hellisheiði í síðustu viku og þá langmest á laugardeginum þegar haldnir voru Blómstrandi dagar í Hveragerði. Nærri 40 prósent fleiri fóru þá yfir heiðina en á sama laugardegi fyrir ári.

Hellisheiði
Rúmlega 7 prósenta meiri umferð mældist yfir Hellisheiði í síðustu viku borið saman við sömu viku árið 2012.  Umferðin frá mánudegi til fimmtudags jókst um 1,2 prósent en um 13,3 prósent frá föstudegi til sunnudags. Ástæða mikillar aukningar yfir helgina má ætla að hafi verið sú að höfuðborgarbúar hafi verið sólgnir í ókeypis ís í Hveragerði á laugardeginum á Blómstrandi dögum þar sem tæplega 38 prósent meiri umferð mældist miðað við sama dag á síðast ári.

Einnig sýnir sig að einkennislag umferðarinnar er óhefðbundið þessa viku þar sem laugardagurinn er stærstur, en alla jafna eru föstu- og sunnudagar umferðarmestir yfir Hellisheiði.

Það vekur athygli að einn svona atburður skuli ná að auka umferðina þetta mikið á þessum árstíma á þessum stað. Laugardagurinn 17. ágúst er annar stærsti umferðardagur yfir Hellisheiði þetta sumarið aðeins föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgina er stærri. 


Umferðin yfir Hellisheiði


Hvalfjarðargöng
Heldur minni umferð varð um Hvalfjarðargöng í síðustu viku borið saman við sömu viku á síðasta ári eða tæplega 4 prósenta minni.  Umferðin frá mánudegi til fimmtudags mældist 2,6 prósentum minni og frá föstudegi til sunnudags 5,2 prósentum minni. Þetta er mesti samdráttur, um Hvalfjarðargöng, yfir eina viku síðan í upphafi sumars.  

Samkvæmt talningum Vegagerðarinnar á Hellisheiði og í Hvalfjarðargöngum virðist það haldast í hendur að mikil umferðaraukning yfir Hellisheiði þýðir alla jafna samdrátt um Hvalfjarðargöng og síðan öfugt. Þessi niðurstaða kemur því ekki á óvart og skýrist sennilega af mikilli aukningu um Hellisheiði í sömu viku.

Umferðin um Hvalfjarðargöng