Fréttir
  • Mismunandi slitlag
  • Mismunandi slitlag

Viðhald vega er arðbærasta fjárfestingin

Niðurskurður á viðhaldi kallar á auknar fjárveitingar seinna meir

16.7.2013


Aukið fjármagn til viðhalds vega er besta og arðbærasta fjárfestingin í samgöngumálum landsins samkvæmt samantekt Vegagerðarinnar um ástand vega með bundnu slitlagi sem lesa má hér fyrir neðan. Niðurskurður í viðhaldi á vegum mun leiða til verulega aukins kostnaðar í framtíðinni. Nú eru um 5.300 km af tæplega 13.000 km vegakerfi með bundnu slitlagi. Miðað við núverandi fjárveitingar til viðhalds bundinna slitlaga má reikna með að vegir sem ekki standa viðhaldskröfur fari úr ríflega 2.000 km í árslok 2013 í ríflega 3.000 km í árslok 2017 eða úr 39 prósentum í 58 prósent af öllum bundnum slitlögum Vegagerðarinnar (2.058 km í 3.064 km af alls 5.308 km af bundnu slitlagi).

Ástand vega með bundnu slitlagi


Meðfylgjandi samantekt er hér sett fram vegna umræðu um ástand bundinna slitlaga á vegum landsins. Í umræðunni hefur því verið haldið fram, að ástand vega með bundnu slitlagi hafi farið versnandi á síðastliðnum árum. Þá er þess getið, að sú þróun muni halda áfram ef ekki verður brugðist við með auknu viðhaldsfé til fyrirbyggjandi aðgerða.

Hér að neðan eru tölulegar upplýsingar um ástand vega með bundnu slitlagi skipt á svæði Vegagerðarinnar. Töflurnar sýna heildarlengd ásamt hlutfallstölum þeirra vega með bundnu slitlagi, sem ekki uppfylla viðhaldskröfur Vegagerðarinnar. Með öðrum orðum er ástand þessara vega orðið lakara en þau lágmarksviðmið, sem notuð eru þegar tekin er ákvörðun um viðhaldsaðgerðir á einstaka vegarköflum.  Þessi viðmið byggja á eftirfarandi þáttum: hrörnun slitlags, hjólfaradýpt, sprungumyndun (burðarþolsskemmdir), holumyndun, kantskemmdir og hlutfall eldri viðgerða.Í töflunum eru notaðar við rauntölur þeirra fjárveitinga sem ætlaðar eru til viðhalds á bundnum slitlögum landsins. Fjárveiting á árinu 2013 er 2.085 mkr. og er reiknað með þeirri upphæð næstu fjögur ár sem forsenda meðfylgjandi niðurstaðna.


Vegir sem ekki uppfylla kröfur

Þessar upplýsingar eru byggðar á gagnaskrám Vegagerðarinnar, en mjög nákvæm skráning er gerð á aldri og viðhaldi alla bundinna slitlaga á vegakerfi landsins. Auk þessara skráninga er framkvæmt sjónmat á öllum vegum með bundnu slitlagi a.m.k. annað hvert ár. Sú skoðun er framkvæmd af mönnum sem hlotið hafa sérstaka þjálfun í skráningu og mati á skemmdum og niðurbroti á vegum með bundnu slitlagi.

Hlutfall sem ekki uppfylla kröfur

Gagnaskrár Vegagerðarinnar eru notaðar við gerð viðhaldsáætlana og kostnaðarmats þegar teknar eru ákvarðanir um brýnustu verkefni til endurbóta á hverju ári. Við úrvinnslu þessara gagna notast Vegagerðin við danskt viðhaldsstjórnunarforrit, svokallað Rosy kerfi. Forritið er m.a. notað á Norðurlöndum til að meta viðhaldsþörf og kostnað til lengri og skemmri tíma. Þannig er hægt að sjá fyrir um þann kostnað sem þarf til á næstu 4 – 5 árum til að viðhalda þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til vegakerfisins. Að öllu jöfnu, þegar reiknilíkaninu eru gefnar forsendur um ótakmarkað fjármagn til viðhalds þeirra vega sem liggja undir í gagnagrunni, myndast einsleitni í þeim niðurstöðum sem forritið gefur. Mestur kostnaður viðhalds verður þá á fyrsta ári, en lækkar síðan jafnt niður á við eftir því sem árin líða. Þetta verður að teljast  eðlilegt við þær aðstæður að viðhaldsþörf er mætt að fullu, sem  augljóst er besta nýting fjárfestinga til lengri tíma.


Hlutfall eftir svædumÍ þeim töflum sem hér eru birtar, er hins vegar valið að notast við rauntölur þeirra fjárveitinga sem ætlaðar eru til viðhalds á bundnum slitlögum landsins. Heildarfjárveiting á yfirstandandi ári er 2.085 mkr. og er það einnig sú upphæð sem er reiknað með til næstu fjögurra ára sem forsendur meðfylgjandi niðurstaðna. Sérstaklega skal bent á, að hér er ekki verið að reikna út kostnaðartölur heldur lögð áhersla á að draga fram versnandi ástand bundinna slitlaga á komandi árum við gefið fjármagn.


Hlutfall eftir árum

Niðurstöðurnar leiða í ljós, að þrátt fyrir fulla nýtingu viðhaldsfjármagns á yfirstandandi ári, munu 2058 km. af vegum með bundnu slitlagi ekki standast lágmarkskröfur Vegagerðarinnar í árslok 2013. Sé litið til næstu ára miðað við óbreytt fjármagn, er ljóst að þróunin er uggvænleg og í árslok 2017 er heildarlengd þessara vega sem ekki uppfylla lágmarkskröfur orðin alls 3064 km. Með öðrum orðum er fyrirsjáanlegt að 58% af vegakerfi landsins með bundnu slitlagi árið 2017 er undir þeim mörkum, að þeim verði haldið við með eðlilegum hætti til framtíðar.

Af þessu má vera ljóst að niðurskurður í viðhaldi á vegum mun alltaf leiða til verulega aukins kostnaðar til lengri tíma litið. Þessar niðurstöður eru settar hér fram til að varpa ljósi á þá staðreynd, að miðað við núverandi ástand er aukið fjármagn til viðhalds vega besta og arðbærasta fjárfestingin í samgöngumálum landsins.

 

Sauðárkróki júní 2013, EG/JM