Fréttir
  • Álftanesvegur

Greinargerð um forsendur Álftanesvegar

var skilað til innanríkisráðherra - ekki ástæða til að breyta fyrri ákvörðun

21.5.2013

Vegagerðin og Garðabær hafa skilað innanríkisráðherra greinargerð um forsendur nýs Álftanesvegar.

Það er sameiginleg niðurstaða bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðarinnar að ekki sé ástæða til að breyta frá þeirri ákvörðun um verkframkvæmdir við Álftanesveg sem ákveðnar voru þegar útboð var auglýst á síðasta ári. Forsendur fyrir færslu vegarins í nýtt vegstæði voru vel rökstuddar og hafa enn frekar verið festar í sessi með uppbyggingu Prýðishverfisins.

Mögulegt er þó að byggja hringtorg í stað mislægra gatnamóta. Það verður kannað.

Engar forsendur hafa breyst varðandi gerð vegarins og uppbyggingu í Garðabæ frá því að umhverfismat framkvæmdarinnar fór fram. Öll tilskilin leyfi eru fyrir hendi og hafa verið af þar til bærum úrskurðaraðilum staðfest lögmæt og gild.

Verktaka hefur verið tilkynnt um að gengið verði til samninga við hann um fullgilt tilboð hans. Hugsanlegt er að frekari stöðvun framkvæmda gæti leitt til bótaskyldu gagnvart verktakanum. Þá hafa íbúar við núverandi Álftanesveg lýst yfir hugsanlegri bótaskyldu á hendur Vegagerðinni og Garðabæ ef horfið verður frá samþykktu skipulagi sem bygging húsa þeirra byggðist á.

I greinargerðinni er fjallað um mislæg gatnamót. Bent er á að gerðar hafi verið "athugasemdir við mislæg gatnamót og að vegslaufur eyðileggi hraunbrúnina að austanverðu, auk þess sem það sé dýr framkvæmd. Garðabær og Vegagerðin munu í tilefni af því kanna og stefna að því að þar komi hringtorg og undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í stað mislægra gatnamóta, enda hafi það ekki áhrif á framkvæmdina að öðru leyti."

Greinargerð Vegagerðarinnar og Garðabæjar

 

Úrskurður Skipulagsstofnunar

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála