Fréttir
  • Snjómokstur

Mokað að morgni kjördags

skynsamlegt að kjósa snemma

26.4.2013

Kjósendur eru hvattir til að kjósa með fyrra fallinu á morgun þar sem tvísýnt er með veður seint annað kvöld, á kjördag. Vegagerðin mun moka flesta fjallvegi á morgni kjördags en spáin er þannig í nótt (aðfararnótt laugardags) að færð gæti spillst. Vetrarþjónusta verður eftir því sem þörf er á á kjördag.

Veðurspáin er síðan slæm seint á kjördag og þá helst undir miðnætti. Á sunnanverðum Vestfjörðum lýkur kjörfundi sumstaðar kl. 20:00 og því best að vera fyrr á ferðinni með að kjósa og kanna hvenær kjörstöðum lokar.

Þetta á við um Vestfirði sérstaklega og einnig Norðurland og Austurland. Búast má við ófærð á fjallvegum að morgni kjördags þar sem í kvöld hvessir og það er mikill snjór á fjöllum. Seint annað kvöld er spáð aukinni norðanátt, rólegri til að byrja með en síðan hvessir þegar á líður. Því er ljóst að nokkur vandkvæði geta orðið með að koma kjörgögnum á talningarstaði vegna veðurs.

 

 

Ábendingar frá veðurfræðingi fyrir kvöldið og nóttina (26.apríl)

Versnandi veður í kvöld á Vestfjörðum og síðar Norðurlandi. Sunnan hvassviðri og hlánar með rigningu í byggð, en á hærri fjallvegum verður snjókoma, skafrenningur og hætt við að skyggni verði lítið. Þar með talið á Steingrímsfjarðarheiði á Þröskuldum og eins sunnanverðum Vestfjörðum. Snjókoma til að byrja með, en síðar krapi á fjallvegum norðan- og vestanlands, en á Mörðudalsöræfum og Fjarðarheiði verður skafrenningur þegar hvessir í nótt og fram á morguninn.