Fréttir
  • Blæðingskaflar janúar 2013

Engar blæðingar lengur

búið að hreinsa þjóðvegina

24.1.2013

Engar blæðingar eru lengur á þjóðvegunum vestanlands og norðan. Þá er búið að hreinsa vegina að mestu en sumstaðar liggja enn fastar klessur sem ber að varast. Unnið er að þeirri hreinsun.

Vegagerðin er töluvert nær því að átta sig á ástæðu þessara vetrarblæðinga. Búið er að kortleggja það svæði sem blæddi úr og bera saman við þau mýkingar og þynningarefni sem voru notuð við útlögnina. Sýni verða send til rannsóknar í Þýskalandi af lífolíu, þ.e.a.s. etýlesterunum og repjuolíunni. 

Möguleg skýring á þessari stundu:

Miklar hitasveiflur voru dagana fyrir þann 18. janúar, bæði í lofthita og veghita. Þann 18. janúar hækkað hiti skarpt. Ljóst er að vatn hefur komist í klæðinguna og ekki komist burt. Vatnið hefur síðan bundist efni í klæðingunni, biki og mýkingarefni, þannig að ökutæki hafi náð að draga tjöru í gegnum slitlagið í gegnum hárfín augu sem hafa myndast. Hugsanlegur galli í repjuolíu sem notuð var á ríflega helmingi þess svæðis sem blæddi úr gæti hafa gert illt verra.

Repjuolían sem notuð var síðast árið 2011 verður send í rannsókn til Þýskalands og einnig sýni úr lífolíunni sem er nánar tiltekið etýlesterar úr fiskilýsi. Mögulegt er að repjan sé að hluta til vatnsleysanleg og það gæti skýrt umfang þessara blæðinga núna.

Blæðingar urðu á um 40 til 45 km köflum víða á leiðinni frá Holtavörðuheiði til Akureyrar. Sjá kort. Á um 25 km af þeim, sem verst blæddu, var notuð repjuolía til mýkingar við útlögn en annars etýlesterarnir úr lýsi eða hvítspíri (White Spirit) til þynningar. Á þeim köflum voru blæðingar minni.

Þannig að Vegagerðin telur líkegast að hitasveiflur í janúar þar sem hitinn sveiflaðist mikið úr frosti og í nokkuð mikinn hita 8-9 sinnum hafi skapað þær aðstæður að vatn náði að blandast efni í klæðingunni og bílar náð að draga það efni upp úr henni. Hitasveiflur af þessu tagi voru til að mynda ekki nema 2-3 í janúar 2012. Ef repjuolían reynist  gölluð gæti hún hafa aukið þennan vanda.

Áfram verður unnið að því að rannsaka hvað getur orsakað blæðingar sem þessar og hvernig best er að haga útlögn í því ljósi og einnig hvernig bregðast megi við komi þessi staða upp aftur.

Ítreka verður að ekki er hægt að slá neinu föstu á þessari stundu en þetta er líkleg ástæða miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Rannsóknir á sýnum munu t.d. skýra myndina betur þegar niðurstöður fást.

 

Vetrarblæðingar í klæðningu (frekari  skýring):

Orsök vetrarblæðinga í klæðningum er önnur en þær blæðingar sem oft verður vart við yfir sumartímann. Á sumrin er það fyrst og fremst mikill hiti og umferð sem losar upp efsta lag klæðninganna og afleiðingin er smit sem ýrist upp með hliðum ökutækja. Vetrarblæðingar orsakast hins vegar af vatni sem lokast inn í klæðningum í örsmáum sprungum eða vatnsbólum í efri hluta klæðninganna. Þessar innilokuðu vatnsbólur verða síðan fyrir áhrifum af hitasveiflum milli frosts og þíðu sem geta undir vissum kringumstæðum verið tíðar yfir veturinn. 

Janúarmánuður hefur verið sérstaklega sveiflukenndur varðandi breytingar á hita undir og yfir frostmarki miðað við mælingar á veðurstöðvum Vegagerðarinnar á Norðvesturlandi. Við þessar aðstæður verður þetta innilokaða vatn í klæðingum fyrir miklum þenslusveiflum sem valda því að bikið umhverfis vatnsbólurnar blandast vatninu og úr verður það sem daglega er kölluð bikblanda (blanda vatns og biks) eða „emultion“.  

Þessi bikblanda er seig og teygjanleg og er mjög viðkvæm fyrir breytingum á hita. Þegar frost er í lofti og vegyfirborði er þessi blanda hörð en við örfáar hitagráður verður hún seigfljótandi. Þegar saman fer hiti yfir frostmarki og að undangengnum sveiflum í lofthita í einhvern tíma, gerist það að þessar bikbólur leita upp á yfirborð vegarins undan þunga umferðar.

Vegagerðin hefur rannsakað þá kafla vegarins sem sérstaklega hefur „blætt“ úr að undanförnu og komist að raun um, að klæðningar sem lagðar voru á árunum 2010 og 2011 hafa orðið verst úti. Einnig er ljóst að bikið í þessum klæðingum var oftast afgreitt úr sama biktanki Vegagerðarinnar.

Þjálniefni eða mýkingarefni sem notað var frá þessari birgðastöð í umræddar klæðningar  var repjuolía . Gerð var forskoðun á þeirri repjuolíu sem enn var eftir í birgðatönkum og leiddi sú skoðun í ljós, að líklega væri of hátt hlutfall af rakadrægum efnum í olíunni. Til að staðfesta þenna grun hefur sýni verið sent til efnagreiningar og er niðurstöðu að vænta í lok næstu viku.

Of hátt hlutfall af rakadrægum efnum í bikblöndu orsaka meiri söfnun af vatnsbólum í klæðingum með hættu á myndun bikþeytu og smit á henni upp á yfirborð vegarins.

 

Blæðingskaflar janúar 2013