Fréttir
  • Umferð um páska 2012 Hellisheiði
  • Umferð um páska 2012 Hvalfjarðargöng

Aukin umferð um páskana

fleiri fóru heim á páskadag í stað annars í páskum

11.4.2012

Umferðin um páskana í ár reyndist töluvert meiri en á páskum í fyrra. Um 12 prósent fleiri bílar fóru um Hellisheiðina þessa páskana en þá síðustu. Þá fóru um þrjú prósent fleiri um Hvalfjarðargöng núna samanborið við páskana 2011. 

Páskar í ár voru fyrr á ferð en í fyrra en að öllu jöfnu er meiri umferð um páska eftir því hversu seint þeir eru á árinu. Greinilega var meiri umferð á sjálfum Páskadeginum miðað við fyrri páska og skýrist það líklega af slæmri veðurspá á annan.

Það er ávallt erfitt að bera saman umferðartölur á milli ára, um páskana, þar sem þeir eru yfirleitt ekki á sama tíma ársins.

Umferð um þjóðvegi landsins vex eftir því sem líður á árið þar til að hámarki er náð í júlí, eftir það fer að draga úr umferð. Því ætti jafnan að vera líkur á meiri umferð um þá páska sem seinna eru á árinu en um þá sem fyrr eru.

Páskar voru:

Árið 2010: 1 - 5, apríl.

Árið 2011: 21. - 25. apríl.

Árið 2012: 5. - 9. apríl.

Það mætti sem sagt fyrirfram búast við að umferð árið 2011 ætti að væri mest, árið 2012 næst og síðan minnsta umferð árið 2010, sé horft til almanaksins.

Þessu er hins vegar algerlega þveröfugt farið þ.e.a.s. umferð um páskana 2011 er minnst, síðan kemur árið 2012 og loks árið 2010 með mestu umferðina í þessari þriggja ára samantekt, samanber stöplaritið sem fylgir sem mynd.

 

Umferð um páska: 

 Alls fóru árið  2010  2011 2012   
 Yfir Hellisheiði  44.676  29.724  33.209 bílar um sama talningastað. 
 Um Hvalfjarðargöng  29.796  27.242  28.032 bílar um göngin

 

Þetta segir okkur að umferð um páskana 2012 reyndist 12% meiri um Hellisheiði en árið 2011 en heilum 26% undir árinu 2010. Líklegt má þó telja að gosið í Fimmvörðuhálsi hafi haft mikið að segja árið 2010.

Sami samanburður fyrir Hvalfjarðargöng sýnir 3% meiri umferð nú í ár borið saman við páskana árið 2011 en 6% undir árinu 2010.

Á stöplaritum sést, í samanburði áranna 2011 og 2012, að meiri umferð er alla dagana um Hellisheiði en um Hvalfjarðargöng er eingöngu páskadagurinn sjálfur með meiri umferð.

Umferðin um Hellisheiði virðist jafnari milli daga en umferðin um Hvalfjarðargöng.

Páskadagur sýnir hlutfallslega mestu aukninguna milli áranna 2011 og 2012. Hverju þetta sætir er ekki gott að segja. Má vera að slæm spá á annan í páskum hafi spilað þar inn í.

 

Athugið að umferðartölur fyrir árið 2012 eru órýndar.