Fréttir
  • Göngu- og hjólabrýrnar

Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaár - samkeppni

Veggerðin og reykjavíkurborg efna til opinnar hugmyndasamkeppni.

22.12.2011

Til að fá fram frjóar og áhugaverðar hugmyndir um nýja göngu- og hjólaleið yfir Elliðaárósa efna Reykjavíkurborg og Vegagerðin til opinnar hugmyndasamkeppni. Gert er ráð fyrir að samið verði við höfunda fyrstu verðlaunatillögu um áframhaldandi hönnun á verkefninu til útboðs og er stefnt að hefja framkvæmdir við brýrnar og stígana næsta sumar.

Hjóla- og göngubrýrnar verða áberandi í borgarlandinu og því mikilvægt að prýði verði að brúnum og þær falli vel inn í umhverfið. Auk fagurfræðilegra þátta munu tæknileg hönnun og kostnaðarmat vega þungt í mati dómnefndar, eins og fram kemur í  keppnislýsingu sem unnin er í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

Styttri og betri hjólaleið

Nýi göngu- og hjólastígurinn mun stytta leiðina milli Grafarvogs og miðborgar umtalsvert eða um  0,7 km.  Gert er ráð fyrir aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með það í huga að stuðla að bættu umferðaröryggi og gera leiðina greiðari. Umferð hjólandi og gangandi yfir Elliðaár er mikil og má gera ráð fyrir að hún aukist með tilkomu nýju leiðarinnar.

Skilafrestur hugmynda rennur út 13. febrúar

Samkeppnin er tveggja þrepa keppni. Réttur til þátttöku takmarkast við þá sem hafa leyfi til að leggja aðaluppdrætti fyrir bygginganefnd eða eru í samstarfi við aðila með slíka löggildingu.  Úr fyrstu tillögum sem skulu berast í síðasta lagi 13. febrúar verða valdar þrjár hugmyndir til nánari útfærslu.  Keppendur sem komast áfram hafa frest til 9. apríl til að skila tillögum og velur dómnefnd á milli þeirra. Verðlaunafé er 3 milljónir fyrir utan virðisaukaskatt og eins og áður segir er gert ráð fyrir að samið verði við höfunda verðlaunatillögu um hönnun á verkinu til útboðs.

Keppnislýsing með nánari upplýsingum.

Sjá einnig á þáttökuvefnum.