Fréttir
  • Héðinsfjarðargöng, í Héðinsfirði

Héðinsfjarðargöng fóru um 17% fram yfir áætlun en Bolungarvíkurgöng ekkert

rangar upplýsingar hafa verið á ferðinni í umræðunni

9.11.2011

Kostnaður vegna Héðinsfjarðarganga reyndist 17,2 prósentum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það skýrist fyrst og fremst vegna aukins kostnaðar vegna gríðarlegs vatnsaga í Ólafsfjarðarhluta ganganna. Efnahagshrunið sem varð hér árið 2008 hjálpaði heldur ekki til.

Kostnaður við Bolungarvíkurgöng stóðst áætlun nokkuð nákvæmlega.

Í umræðu um kostnað við gangagerð, nú síðast á opnum nefndarfundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, hefur því ranglega verið haldið fram að umframkostnaður við þessi göng hlaupi á jafnvel 80-90 prósentum. Því fer fjarri.

Líklega hefur þetta komist inn í umræðuna með því að menn hafi tekið upphaflegu áætlunina og látið vera að umreikna hana til verðlags og borið síðan saman við endanlegan kostnað á allt öðru verðlagi.

Í verksamningum vegna byggingar ganganna eru ákvæði um að verkin séu verðbætt miðað við þróun byggingarvísitölunnar, líkt og gert er í öllum stærri verksamningum.

Uppreiknaður kostnaður við Héðinsfjarðargöng til verðlags í dag nemur 15.490 millj. kr. Áætlunin var á sínum tíma (2006) 7.500 millj. kr og uppreiknuð til sama verðlags reynist hún 13.220 millj. kr. Þannig er kostnaður umfram áætlun 17,2 prósent. Byggingarvísitalan var 316,7 stig í janúar 2006 þegar áætlunin var gerð en er nú í nóvember 2011 558,2 stig.

Sé kostnaður við Bolungarvíkurgöng uppreiknaður á sama hátt þá reynist hann 7.460 millj. kr. Áætlunin á sínum tíma (2007) hljóðaði upp á 5.070 millj. kr og umreiknað til verðlags í dag reynist áætlunin því vera 7.510 millj. kr eða nánast það sama og raunkostnaðurinn. Reyndar lægri ef eitthvað er. Byggingarvísitalan var 367,7 stig í nóvember 2007 þegar áætlunin var gerð en er nú nóvember 2011 558,2 stig.

Miðað er við áætlanir fyrir opnun tilboða.