Fréttir
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu með spá
  • Samanlagður akstur á höfuðborgarsvæðinu
  • Uppsöfnuð umferð á höfuðborgarsvæðinu

Minni umferð á höfuðborgarsvæðinu

Stefnir í minni umferð en 2010 en meiri en 2006

3.11.2011

Umferðin á þremur mælipunktum Vegagerðarinnar innan höfuðborgarsvæðisins dróst saman um ríflega 3 prósent í október. Það stefnir í að samdrátturinn verði um 2,6 prósent í heild í ár. Það er minni samdráttur en á 16 mælipunktum á Hringveginum. Sjá frétt hér við hliðina.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu yrði þannig nokkuð minni en í fyrra en eigi að síður meiri en árið 2006. Á Hringvegi stefnir hinsvegar í að umferðin verði aðeins minni en árið 2006 en nokkuð meiri en árið 2005.

Umferð og akstur yfir þrjú mælisnið Vegagerðarinnar, innan höfuðborgarsvæðisins:

Milli mánaða 2011 og 2010:Meðalakstur, milli október mánaða, dróst saman í heild um rúmlega 3%. Þessi samdráttur kemur í kjölfarið á minniháttar aukningu sem varð í tveimur mánuðunum í röð þar á undan.

Samdráttur í umferð varð í öllum mælisniðunum þremur. Mest dróst umferðin saman á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar eða um 5,7%, en minnst á Reykjanesbraut við Dalveg um 1,6%, Vesturlandsvegur á móts við Skeljung, ofan Ártúnsbrekku, er síðan nánast mitt á mill þessara tveggja með 3,7% samdrátt.

Það sem af er ári 2011 miðað við 2010:

Uppsafnaður samdráttur á meðalakstri í heild frá áramótum, fyrir alla teljarana er nú 2,5% og er það sami samdráttur og var eftir september mánuð, sjá talnaefni. 

Horfur út árið 2011:

Þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu er enn líkur til þess að samdráttur í akstri yfir þessi þrjú mælisnið verði samtals 2,6%, líkt og framreikningur sýndi eftir septemberuppgjör. Október umferðin virðist hafa hegðað sér alveg eins og framreikningur umferðardeildar gerði ráð fyrir. Framreikningur umferðardeildar gerir nú ráð fyrir að umferðin, í næstu tveim mánuðum, verði svipuð og í október. Verði sú raunin má búast við samtals um 2% samdrætti í nóvember og tæplega 4% samrætti í desember.

Það hefur áður komið fram, í þessum fréttum okkar af umferðinni innan höfuðborgarsvæðisins, að Hafnarfjarðarvegur hefur reynst mun sveiflukenndari, milli mánaða, en hin sniðin tvö og því hefur reynst erfiðara að framreikna líklega niðurstöðu á þann veg.

Nú er gert ráð fyrir að umferð dragist mest saman á Hafnarfjarðarvegi eða 4,7%, 1,8% samdráttur verði á Reykjanesbraut og litlu minni samdráttur verið á Vesturlandsvegi eða um 1,7%, í árslok.