Fréttir
  • Oddsskarðsgöng

Ekki hætta í Oddsskarðsgöngum

net tekur við grjóthruni sem er ólíklegt að verði

3.8.2011

Vegagerðin telur að öryggi vegfarenda í Oddsskarðsgöngum sé ekki sérstaklega ógnað vegna hugsanlegs grjóthruns, og lítur þar til ástands bergsins og reynslu fyrri ára.

Þrátt fyrir að tveir stærri steinar hafi fallið úr lofti Oddskarðsganga í vor í net sem ætlað er að taka við þeim er ekki hætta af grjóthruni í göngunum. Netið tók við steinunum og ultu þeir út að vegg ganganna, niður gangavegginn og þaðan út á akbrautina.

Steinarnir féllu ekki beint á akbrautina. Svæðið þar sem steinarnir losnuðu var skoðað af þessu tilefni og ekki var orðið vart við los á neinum stærri steinum. Svæðið er reglulega lauslega skoðað og við þær skoðanir hafa ekki komið í ljós los á neinum stærri steinum.

Oddsskarðsgöng voru opnuð 1977 og aldrei hefur orðið hrun í þeim sem hefur ógnað vegfarendum. Á afmörkuðum stöðum hafa losnað og hrunið smærri steinar en netið í loftinu tekur við þeim, þetta hefur ekki verið meira áberandi í sumar en fyrri ár.

Ýtarlegri úttekt á hugsanlegu steinlosi í göngunum verður gerð fljótlega og kannað hvort þörf er á frekari styrkingum eða netvörnum.