Fréttir
  • Umferðin í mars

Mikill samdráttur í mars

taka verður tillit til páska en samdrátturinn nemur 15,5 prósentum

1.4.2011

Umferðin í mars dróst saman um 15,5 prósent samanborið við sama mánuð fyrir ári síðan. Samdráttur er á öllum 16 völdu talningarstöðum Vegagerðarinnar. Alltaf eru miklar sveiflur í umferðinni þessa mánuði vegna rysjótts veðurfars og eftir því hvenær páskarnir eru hverju sinni.

Gosið í Eyjafjallajökli leiðir til þess að á Suðurlandi mælist samdráttur meiri en ella enda jókst umferðin í mars í fyrra mjög mikið. Verulegum samdrætti er spáð út árið haldi þessi þróun áfram.

Gríðarlegar sveiflur hafa ávallt verið í umferð milli mars mánaða annars vegar og apríl mánaða hins vegar, úti á þjóðvegum landsins, sem orsakast af samspili milli rysjótts veðurfars í mars og staðsetningar páska, annað hvort í mars eða apríl. Páskar voru í byrjun apríl árið 2010 en nú í ár verða þeir í lok apríl. Árið 2009 voru páskar um miðjan apríl en árið 2008 um miðjan mars.

Hvort þetta skýrir að hluta til þær miklu sveiflur í umferðinni þá mun það koma í ljós þegar lengra líður á árið.

Enn mælist mjög mikill samdráttur umferðar á Hringvegi á 16 völdum mælipunktum Vegagerðarinnar, fyrir mars mánuð 2011 borinn saman við sama mánuð árið 2010, eða heil 15,5% og akstur (þ.e. umferð/dag x lengd vegkafla í km) hefur dregist saman um rúmlega 18%. Alltaf ber að fara varlega í að túlka tölur en 15,5% og 18,1% samdráttur er fáséður og einsdæmi frá því að þessi samantekt byrjaði árið 2005. Hverju þetta sætir er ekki gott að fullyrða. Fyrir utan árstíðabundnar sveiflur þarf ekki annað en að horfa til mikilla bensínhækkana undanfarið og til almenns samdráttar í þjóðfélaginu til að geta sér til um a.m.k. hluta orsakanna.

Þegar horft er til mismunar milli mánaða:

Þá dregst umferð mest saman á Suðurlandi eða tæp 30% eða þriðjung. Umferð dregst einnig mjög mikið saman á Hringvegi um Höfuðborgarsvæðið eða 11,7% milli mars mánaða, en það er jafnframt næst minnsti samdrátturinn.

Minnst dregst umferð saman á Austurlandi milli mars mánaða eða um 11,5%, þ.e.a.s. litlu minna en um Hringveg um Höfuðborgarsvæðið.

 

Þegar það sem liðið er af árinu er skoðað:

Þá hefur umferð á Suðurlandi dregist mest saman eða um tæp 16%.

Minnst dregst umferð saman á Hringvegi um Höfuðborgarsvæðið eða um tæp 8%

Umferð dregst svipað saman á Hringvegi í öðrum landshlutum, eða í kringum 10%.

Þessi mikli samdráttur í umferð á landinu og ekki síst á Suðurlandi vekur óneitanlega upp spurningar. Fyrirvari er alltaf á því að mælitækin geta bilað en þegar horft er á töflu 2 sést að á Suðurlandi þá jókst umferðin milli mars mánaða 2009 og 2010, mikið eða um heil 18%, samtals. Er sú aukning rakin til eldgossins í Eyjafjallajökli í mars 2010. Það verður því að teljast eðlilegt þar sem umferð milli Hellu og Hvolsvallar jókst um 46% milli mars mánaða 2009 og 2010 að nú dragist hún mikið saman eða um heil 40% og um 25% á Hellisheiði. En eftir sem áður er mikill samdráttur á öllu landinu en hvergi eins mikil og á Suðurlandi.

Enn er of snemmt að segja til um hvort þessi mikli samdráttur í mars sé fyrirboði mikils samdráttar út árið 2011, hluti hans á sér eðlilegar skýringar einsog fram hefur komið en ef meðfylgjandi samantektartafla og tafla nr. 2 eru skoðaðar þá varð rúmlega 8% samdráttur í umferð milli mars mánaða 2008 og 2009 en þegar árið var gert upp kom í ljós 2% aukning milli áranna. Þessi aukning varð vegna mikils sumartopps árið 2009, sem koma verður í ljós hvort endurtekur sig nú í ár.

Verði umferðin með hefðbundnum hætti og tekið sé mið að því hvernig þróun umferðar hefur verið á árunum 2000 - 2010 og það borið saman við þrjá fyrstu mánuði ársins 2011 má búast við lang-mesta samdrætti, í akstri, frá árinu 1975 eða 8,5%. Allur fyrirvari skal hafður á þessari spá og sérstaklega þar sem slíkar tölur hafa ekki sést í gögnum Vegagerðarinnar til þessa. Einnig verður að hafa í huga að eldgosið í Eyjafjallajökli kann að trufla spána. Sé árið 2010 tekið út úr spálíkaninu, vegna þessara sérstöku aðstæðna sem sköpuðust vegna eldgossins, þá spáir módellið aðeins minni samdrætti eða 8%.

 

Umferðin í mars

 

Talnaefni og linurit.

 

Athugið að fyrirvari skal hafður á umferðartölum fyrir árið 2011 þar sem þær eru órýndar og geta því breyst við endalega yfirferð þegar árið verður gert upp.