Fréttir
  • Vinnusvæðamerkingar

Févíti séu vinnusvæðamerkingar í ólagi

ákvörðun Vegagerðarinnar um vinnusvæðamerkingar

15.2.2011

Vegagerðin hefur á undanförnum misserum unnið að því að bæta vinnusvæðamerkingar. Gerðar eru meiri kröfur til merkinga en áður hefur verið og á það sér stoð í reglugerð sem sett var árið 2009.

Nú ættu verktökum og öðrum sem koma að þessum málum vera ljóst hvernig standa skuli að vinnusvæðamerkingunum. Það má segja að aðlögunartímabili sé nú lokið, og því mun Vegagerðin frá og með 1. mars 2011 framfylgja reglugerðinni að fullu og beita févítum í samræmi við útboðs- og samningsgögn í þeim verkum þar sem nýjar reglur gilda.

 

Vegna þessa hefur neðanskráð orðsending verið gefin út:

 

Orðsending nr. 02/ 2011

um vinnusvæðamerkingar og févíti

 

Reglugerð nr. 492/2009 um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á og við veg tók gildi 15. maí 2009.

Öll verk á þjóðvegum sem Vegagerðin vinnur eða lætur verktaka vinna skulu uppfylla reglur og ákvæði um vinnusvæðamerkingar skv. fyrrnefndri reglugerð.

Frá og með 1. mars 2011 skal farið að fullu eftir þeim reglum og fyrirmælum Vegagerðarinnar sem gilda um vinnusvæðamerkingar, 4. útgáfu 12.08.2010, svo og þeim ákvæðum um að beita févítum í samræmi við útboðs- og samningsgögn í þeim verkum þar sem nýjar reglur um vinnusvæðamerkingar gilda, sbr. gr. 1.3.2 í Leiðbeiningar og reglur við gerð útboðslýsinga sem er svohljóðandi:

„Verkkaupi mun gera reglulega úttekt á merkingum vinnusvæðis. Sé einhverju

ábótavant verða reiknuð út févíti sem dregin verða frá greiðsluupphæð til verktaka

samkvæmt fyrirfram skilgreindri úttektar- og reikniaðferð, sem sýnd er í fylgiskjali 1

og fylgiskjali 2 með útboðslýsingu.“

Varðandi vetrarþjónustu er gr. 1.3.2 í Leiðbeiningar og reglur við gerð útboðslýsinga í vetrarþjónustu svohljóðandi:

 

Verkkaupi mun gera reglulega úttekt á viðvörunarljósum og öryggisfatnaði. Sé einhverju ábótavant verða dregin frá greiðsluupphæð til verktaka févíti að fjárhæð kr.15.000.

 

Óheimilt er að víkja frá ofangreindri reglugerð og reglum.