Fréttir
  • Umferð höfuðborgarsvæðið

Líka minna keyrt á höfuðborgarsvæðinu

dregur úr umferð á þremur talningarstöðum

8.2.2011

Sé tekið mið af þremur talningarstöðum á höfuðborgarsvæðinu (þjóðvegir í þéttbýli) kemur í ljós að annað árið í röð varð samdráttur í umferð árið 2010, eða um 1,1 prósent. Umferðin árið áður dróst saman um 3,1 prósent.

Í janúar 2011 dróst umferðin enn meira saman eða um 3,9 prósent, en sá samdráttur er fyrst og fremst tilkominn vegna samdráttar á einum talningarstað af þessum þremur. Vegagerðin spáir nú fyrir um umferðina í ár og miðað við þessar tölur og með öllum fyrirvörum hljóðar sú spá upp á 2,7 prósenta samdrátt árið 2011.

Uppgjör milli 2009 og 2010:

Seint á síðasta ári var ákveðið að birta umferðartölur úr þremur þjóðvegasniðum á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar 16 völdum sniðum á Hringvegi.

Sniðin eru: Hafnarfjarðarvegur sunnan Kópavogslækjar, Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi og Nesbraut (Vesturlandsvegur) ofan Ártúnsbrekku við bensínstöð Skeljungs.

Niðurstaða mælinga á þessum þremur stöðum er sú að þær sýna rúmlega 1,1% samdrátt milli áranna 2009 og 2010, sem kann að virðast lítið en þá má benda á að milli áranna 2008 og 2009 varð 3,1% samdráttur. Þannig að annað árið í röð mælist samdráttur milli ára, sem fáséð er ef horft er lengra aftur í tímann og til landsins alls.

Á tímabilinu 2005 - 2010 er árið 2008 stærst á höfuðborgarsvæðinu en á 16 völdum talningastöðum á Hringvegi hefur árið 2009 reynst stærst, til þessa.

 

Milli áranna 2010 og 2011:

Nú liggja fyrir tölur í janúar 2011. Niðurstaðan er um 3,9% samdráttur milli janúarmánaða 2010 og 2011, sem, eins og sést á meðfylgjandi töflu, stafar af miklum samdrætti á Hafnarfjarðarvegi eða um 11,2% meðan sniðin yfir Reykjanesbraut og Nesbraut ofan Ártúnsbrekku gefa bæði 0,8% samdrátt. Því vaknar sú spurning hvers vegna er þessi mikli samdráttur á Hafnarfjarðarvegi? Þar sem einungis einn mánuður er liðinn af árinu er erfitt að sjá hvort um bilun í búnaði sé að ræða, en við fyrstu sýn virðist það ekki vera. Önnur hugsanleg skýring gæti verið sú að framkvæmdir stóðu yfir á Reykjanesbraut á síðast ári en er nú lokið. Það kann að vera að framkvæmdirnar hafi beint umferðinni meira yfir á Hafnarfjarðarveg sem nú hverfur til baka yfir á Reykjanesbrautina og hugsanlega aðra vegi.

Sé hins vegar samtala þessara þriggja staða að sýna rétta niðurstöðu eða 3,9% samdrátt, sbr. áður, er hann sá mesti milli janúarmánaða frá árinu 2005. Næst mestur var hann milli janúar 2008 og 2009 eða 3,5%, en þá ber að líta til þess að akstur hafði aldrei verið meiri á höfuðborgarsvæðinu en einmitt árið 2008. Þetta er því gríðarlegur samdráttur sé miðað við árið 2008 eða heil 9,8%, milli janúarmánaða.

Það er óhætt að segja að umferðartölur í janúar gefa ekki til kynna að umferð fari að aukast aftur árið 2011. Því var ráðist í það að framreikna alla mánuði ársins 2011, til að kanna málið. Í fyrsta sinn síðan þessar tölur hafa verið teknar saman ætlar Vegagerðin að birta spá byggða á meðalumferð janúarmánaðar, fyrir höfuðborgarsvæðið. Gríðarlega erfitt er að spá fyrir um umferð almennt á Íslandi því svo óútreiknanleg hefur hún reynst vera (sjá línurit um meðalakstur) þar sem veðurfar, sérstaklega yfir vetrarmánuði, getur verið stór áhrifavaldur.

Það ber því að taka þessari spá með miklum fyrirvara að auki skal haft í huga að hún er byggð á tölum sem ekki hafa verið rýndar (gert eftir að árið er liðið). Spá er aldrei staðreynd því ber að leggja áherslu á að umferðartölur ársins 2011, fyrir febrúar - desember eru SPÁtölur.

Sé tekið mið af árunum 2005 - 2010 og þeim gefið jafnt vægi má búast við um 2,7% samdrætti fyrir árið 2011. Þetta þýðir að umferðin á Höfuðborgarsvæðinu árið 2011 yrði litlu meiri en hún var árið 2006, sjá línurit um uppsafnaðan akstur.

Ef engir tæknilegir örðugleikar koma upp, svo sem bilun í búnaði o.s.frv., er ætlunin að birta leiðrétta spá út árið 2011, eftir hver mánaðarmót. Ætti sú spá að batna því lengra sem líður á árið. Rannsóknir Vegagerðarinnar sýna að svona spár eru ónákvæmastar fyrstu 4 mánuði ársins en að loknum júní hafa þær reynst nokkuð réttar, sjá línurit um þróun ÁDU spár, fyrir árið 2010.

 

Í ljósi reynslunnar skal það tekið fram að aksturstölur fyrir árið 2011 eru órýnd gögn, sem geta tekið breytingum þegar árið er gert upp.

 

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817