Fréttir
  • 2+1 vegur á Suðurlandsvegi

Flýtt fyrir vegaframkvæmdum

aukið umferðaröryggi, færri slys

16.12.2010

Tilgangurinn með breikkun vega í nágrenni höfuðborgarinnar er margþættur. Lengi hefur verið barist fyrir aðskilnaði akstursstefna á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og á Reykjanesbrautinni. Í síðastnefnda tilvikinu var valið að leggja 2+2 veg með mislægum gatnamótum.

Sú verður ekki raunin með Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, í fyrra tilvikinu verður farin blönduð leið með 2+1 vegi og 2+2 vegi og mislæg gatnamót hugsanlega látin bíða um sinn. Á Vesturlandsvegi verður lagður 2+1 vegur.

Innheimta veggjalda er alveg óútfærð enda hæfist hún ekki fyrr en að loknum framkvæmdum á árunum 2015 - 2016.

Arðsemi þessara framkvæmda er mikil vegna fjölda slysa auk þess sem greiðfærari vegir auka arðsemina. Aðskilnaður akstursstefna er mikilvægt umferðaröryggismál og hefur mest að segja um fækkun alvarlegustu slysanna. Víða erlendis hefur verið farin sú leið að flýta fyrir vegaframkvæmdum með því að leggja tollvegi þar sem vegfarendur greiða beint fyrir vegabæturnar með veggjöldum. Mikið hefur verið gert af þessu í Noregi og það er alls ekki alltaf svo að vegfarandinn hafi um aðra leið að velja. Norðmenn líta svo á að með þessu flýti þeir framkvæmdum um fimm, tíu eða jafnvel 15 ár og telja akk í því.

Eins og staðan er á Íslandi þá stendur valið um að fara í þessar framkvæmdir með lántöku þar sem vegfarendur greiða niður lánin með veggjöldum, eða fara ekki í þessar framkvæmdir fyrr en eftir nokkuð mörg ár. Framkvæmdirnar munu ekki á nokkurn hátt tefja aðra uppbyggingu vegakerfisins svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum. Til viðbótar við arðsemi framkvæmdanna leiðir flýtingin til atvinnusköpunar fyrir fólk og verktaka en sú þörf hefur sjaldan verið brýnni. 

Varðandi kaflann milli Hveragerðis og Selfoss hefur ekki verið endanlega ákveðið hvort notað verði svokallað þröngt þversnið eða breitt og ekki heldur hvort gatnamót verða strax mislæg eða með hringtorgi til að byrja með. Við samanburð á 2+2 vegi og 2+1 þarf að hafa í huga að munurinn á kostnaði þessara kosta liggur fyrst og fremst í mislægum gatnamótum sem eru dýrustu þættirnir í vegalagningunni.

Vegagerðin hefur lagt áherslu á að ná fram auknu öryggi á einstökum vegum með sem lægstum tilkostnaði. Þegar fjármagn er takmarkað og endanleg, föst stærð, þá kemur of dýr lausn á einum stað í veg fyrir að unnt sé að bæta öryggið annars staðar, svo málið sé sett fram í sinni einföldustu mynd.

Undirbúningur framkvæmda í því skyni að bæta umferðaröryggi á Suðurlandsvegi hefur staðið yfir í allmörg misseri. Enginn ágreiningur er um markmiðið en sitt hefur sýnst hverjum um leiðirnar.

Vegagerðin telur að ekki þurfi alltaf  að velja dýrustu leiðirnar til að ná tilætluðum árangri. Umferð á Suðurlandsvegi er ekki það mikil að þörf sé á 2+2 vegi umferðarmagnsins vegna. Svo sem nefnt hefur verið er meginmálið til að auka umferðaröryggi á veginum að aðskilja gagnstæðar akstursstefnur og það má gera með mun einfaldari hætti eða með 2+1 vegum.

Um það verður ekki deilt að gerð mislægra vegamóta eykur öryggi vega. Kostnaður við gerð slíkra vegamóta er hins vegar það hár að vart er verjanlegt að nota þau á umferðarlitla vegi nema við sérstaklega erfiðar aðstæður eins og t.d. efst á Hellisheiði þar sem þoka eða snjóbylur getur takmarkað vegsýn nánast niður í núll. Aftur er komið að spurningunni hvernig á að nýta takmarkað fjármagn til að ná sem mestum heildarárangri í umferðaröryggisstarfinu. Við gerð frumdraga að breikkun Suðurlandsvegar frá Hólmsá til Hveragerðis var lagt mat á kostnað við mismunandi breiddir vega og reyndist hann eftirfarandi (hlutfallstölur, 2+1 sett 100, 2+2 vegur með planvegamótum miðast við þröngt snið):

 

2+2 vegur mislæg vegamót 

2+1 vegur planvegamót 

2+2 vegur planvegamót 

250

100

154

 

Eins og sjá má af töflunni þá er 2+2 vegur með planvegamótum 50 % dýrari en 2+1 vegur með planvegamótum. Reynslutölur frá Svíþjóð segja hins vegar að munur á öryggi sé lítill sem enginn. 2+2 vegur með mislægum vegamótum er hins vegar 150 % dýrari en 2+1 vegur með planvegamótum. Öryggið er vissulega meira en ekki í nokkru samræmi við það sem næðist fram í auknu öryggi með því að nota mismun kostnaðarins til að aðskilja akstursstefnur víðar í vegakerfinu.

Þrátt fyrir það þótti réttlætanlegt að gera 2+2 veg upp að Litlu kaffistofu þar eð umferðin er þar töluvert meiri en austar, þar sem hluti hennar fer um Þrengslaveginn. Almennt má síðan nefna sem kost við 2+2 vegi að á framkvæmdatímanum verður lítil sem engin truflun eða skerðing á umferðaröryggi á þeim vegi sem fyrir er, sem aftur veður óhjákvæmilegt við það að bæta einni akrein utan á tveggja akreina veg.

Í stuttu máli sagt þá er það vilji Vegagerðarinnar að nota lausnir við hæfi við sérhverjar aðstæður og ná fram sem mestu heildaröryggi á vegakerfinu öllum landsmönnum til farsældar.

Það má þess vegna fagna því að almennt virðast landsmenn jákvæðir í garð 2+1 vegformsins en ekki er langt síðan að varla kom annað til greina en að leggja 2+2 vegi með mislægum vegamótum út frá höfuðborginni.