Fréttir
  • Helgarumferðin

Minni umferð um helgina

minnkunin frá Verslunarmannahelginni er í samræmi við reynsluna fyrri sumur

9.8.2010

Umferðin um helgina var töluvert minni en um nýliðna Verslunarmannahelgi eða tæplega átta prósentum minni. Þetta er í samræmi við þróunina á helgarumferðinni síðastliðin sumur.

Umferðin nú var eigi að síður ríflega sex prósentum meiri en sömu helgi í fyrrasumar og er þetta önnur helgin í röð sem er umferðarmeiri en helgi sumarið 2009, en sumarumferðin hefur aldrei verið meiri en það ár og ekki útlit fyrir að það met verði slegið í ár.

Á stöplariti um helgarumferðina á 6 talningarstöðum í nágrenni höfuðborgarinnar má sjá þróunina síðast liðin þrjú sumur. Í ár er umferðin í samræmi við það sem hefur gerst undanfarin ár þ.e. a.s. jafnan dregur úr umferð eftir verslunarmannahelgina.

Umferðin um helgina var þó heldur meiri yfir sömu helgi en fyrir ári síðan eða rúmlega 6 prósetn. Aukning varð á öllum mælipunktum, sjá töflu. Það er þá önnur helgin í röð sem helgarumferð 2010 verður yfir helgarumferð 2009.

7,0 prósenta aukning varð á umferð austur fyrir fjall en 5,3 prósenta aukning í norður, borin saman við sömu helgi 2009.

Meðalumferð um helgar 2010, það sem af er sumri, er nánast sú sama og árið 2008, þó aðeins undir.

Yfir fiskidagshelgina á Dalvík varð minni helgarumferð, um teljara á Hámundastaðahálsi austan við Dalvík, eða tæp 5 prósent, borin saman við sömu helgi 2009.

Spennandi verður að sjá hver helgarumferðin verður um næstu helgi þar sem hún var töluverð árið 2009, sjá stöplaritið.

Ath. umferðartölur fyrir árið 2010 eru órýndar, gætu því tekið breytingum við nánari skoðun Vegagerðarinnar þegar árið er gert upp.

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817