Fréttir
  • Í Grímsey föstudag

Af ferjumálum

Niðurskurður kemur svipað niður á allar ferjuleiðir

13.1.2010

Niðurskurður er á öllum þáttum í starfsemi Vegagerðarinnar svo sem kunnugt er. Einnig þegar kemur að styrkjum til almenningssamgangna svo sem styrktra ferða í ferjurekstri.

Rétt er, sem kemur fram í Morgunblaðinu í dag 13. janúar, að til skoðunar er innan Vegagerðarinnar að hliðra til þegar kemur að fækkun ferða með Grímseyjarferjunni Sæfara.

Hinsvegar er það ekki rétt sem heimamenn halda fram í frétt um málið að niðurskurðinn sé 33% því í reynd er hann tæplega 14 prósent og svipaður og annarsstaðar.

Óánægja Grímseyinga er alveg skiljanleg en þar er miðað við að fækka ferðum úr 3 í viku í 2 en einungis hluta úr árinu.

Vegagerðin leggur til að ferðunum verði fækkað mánuðina janúar til mars og í nóvember og desember en Grímseyingum hefur verið boðið að það verði gert á öðrum tímum til að koma til móts við þarfir atvinnulífsins. Einnig er, eins og kom fram hjá samgönguráðherra í blaðinu, verið að skoða aðrar hugsanlegar leiðir við hliðrun á ferðum en þar er einnig óskað hugmynda frá heimamönnum.

Varðandi aðrar ferjur landsins þá nemur niðurskurðurinn á styrktum ferðum með Herjólfi til Vestmannaeyja 9,5 % en þá er tekið mið af hálfu árinu eða þar til að ný Landeyjahöfn verður tekin í notkun, fækkað er um 2 styrktar ferðir af 14 mánuðina janúar til og með apríl.

Styrkjum til Breiðaferðaferjunnar Baldurs verður fækkað um 1 af 7 eða um ríflega 14 prósent um vetrartímann því engar sumarferðir eru styrktar.

Hjá Hríseyjarferjunni Sævari nemur niðurskurðurinn 9,5 %.

Ekki er búið að ganga frá samningum varðandi siglingar í Ísafjarðardjúpi og milli Neskaupstaðar og Mjóafjarðar.

Rétt er að minna á að þetta eru þær ferðir sem styrktar eru, rekstraraðilar geta að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til siglt eins oft og þá lystir.