Fréttir
  • ferjan Baldur

Baldur siglir á Eyjar

betri lausnir margfalt dýrari, ef þær eru á annað borð fyrir hendi

17.9.2009

Það verður ekki hjá því komist að Herjólfur fari endrum og eins í slipp. Þegar það gerist er nauðsynlegt að fá annað skip til að sigla á milli Vestmannaeyja og lands. Undanfarin ár hefur St. Ola sinnt því hlutverki en í ár var ekki hægt að leigja St. Ola til verksins. Eigendur skipsins eru að selja það og vildu þess vegna ekki leigja það á þessum tíma. Það hefði auk þess kostað einar 80 milljónir króna að fá St. Ola til landsins en til samanburðar kostar 20 – 30 milljónir króna að fá Baldur til starfans, fer eftir því hvað hann siglir lengi.

Það segir sig sjálft að þegar skera þarf niður kostnað á öllum sviðum og líka í þjónustu og styrkjum þá er ekki forsvaranlegt að fara dýrari leiðina. Fyrir utan að það fé er einfaldlega ekki til. Að leigja annað skip en St. Ola utanlands frá, en það var líka athugað, hefði kostað enn þá meira.

Reynt er að skipuleggja slipptöku Herjólfs þannig að það valdi sem minnstri röskun. Því er Herjólfur ekki tekinn í slipp að sumri til þegar mest er umferð ferðamanna og heldur ekki seint á hausti einmitt vegna þess að þá fara veður að versna.

Það verður þó aldrei hægt að koma í veg fyrir allt óhagræði af þessu sökum.

Rétt er einnig að benda á að flug til Vestamannaeyja er styrkt rétt einsog siglingar til Eyja og þrátt fyrir háar öldur á Surtseyjardufli þá hefur verið flogið og því eru Eyjar ekki einangraðar.

Á næsta ári verður svo tekin í notkun ný höfn á Landeyjasandi og mun það bæta samgöngur til Vestmannaeyja stórkostlega.