Fréttir
  • Skilti utanvegaakstur

Skilti um utanvegaakstur og akstur á hálendinu

skrifað undir samstarfssamning

20.8.2009

Í dag 20. ágúst undirrituðu vegamálastjóri, fulltrúar tryggingarfélaganna og fulltrúar bílaleiganna samstarfssamning um kostun, gerð og uppsetningu skilta er sem ætlað er upplýsa ökumenn um reglur þær og ástæður fyrir því að utanvegakstur á Íslandi er bannaður.

Frá bílaleigunum og tryggingarfélögunum eru jafnframt þau skilaboð að akstur fólksbíla frá bílaleigum inn á hálendið er bannaður.

Samgönguráðherra og umhverfisráðherra voru viðstaddir undirskriftina.

Skiltin verða sett upp við innkomur á helstu leiðir inn á hálendi landsins. Í fyrsta áfanga á þessu ári verða sett upp 10 skilti, við Kjalveg við Gullfoss og í Blöndudal, við innkomuleiðir á Sprengisand við Hrauneyjar, á Eyjafjarðarleið við Hólsgerði og í Bárðardal ofan við Mýri, fyrir Nyrðra Fjallabak við upphaf Landmannaleiðar við Landveg, fyrir Syðra Fjallabak ofan við Keldur, og í Fljótshlíð neðan Gilsár og við Búland og fyrir leið í Laka við Hringveg.

Áætlað er að halda verkinu áfram á næstu tveimur árum, en alls er gert ráð fyrir að setja upp um 30 skilti af þessari gerð.

Samstarfsamningurinn er gerður milli Vegagerðarinnar, fyrir hönd hins opinbera og skipaðrar nefndar um utanvegaakstur, tryggingarfélaganna og bílaleiganna.

Vegagerðin hafði umsjón með framkvæmd verksins.

Teikn á lofti á Akureyri sá um hönnun og útlit skiltanna.

Skiltagerðin á Ólafsfirði annaðist prentun á álplötur.

Rammar og frágangur var unnin á trésmíðaverkstæði Vegagerðarinnar í Reykjavík.

Auk Vegagerðarinnar, tryggingarfélaganna og bílaleiganna komu að þessu verkefni: Samgönguráðuneytið, Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Landvernd, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Mótorhjóla og snjósleðaíþróttasamband Íslands, Slóðavinir, Ferðaklúbburinn 4x4, Landgræðslan, Ríkislögreglustjóri, Samtök ferðaþjónustunnar, Landvarðafélag Íslands, Ökukennarafélag Íslands og Umferðarstofa.

Utanvegaakstur skilti

Utanvegaakstur skilti

Utanvegaakstur skilti