Fréttir
  • Tvöföldun Suðurlandsvegar

Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss

Drög að tillögu að matsáætlun

13.1.2009

Vegagerðin hyggst tvöfalda Suðurlandsveg frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss. Markmið þessarar framkvæmdar er að byggja veg með tvær aðskildar akreinar í hvora átt og auka þannig umferðaröryggi, lækka slysatíðni og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg. Gerð verða mislæg vegamót á allt að 4 stöðum og tengingum þannig fækkað og þær gerðar öruggari.

Núverandi vegur mun nýtast sem hluti af nýjum tvöföldum vegi og að hluta sem hliðarvegur. Suðurlandsvegur mun víkja frá núverandi legu norðan Selfoss og verða í nýrri legu yfir Ölfusá. Lagðir verða fram tveir valkostir fyrir þverun árinnar.

Vegurinn liggur um sveitarfélögin Hveragerði, Ölfus, Árborg og Flóahrepp.

Tvöföldun Suðurlandsvegar og gerð mislægra vegamóta er matsskyld skv. tl. 10. ii. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum.

Drög að tillögu að matsáætlun eru nú til kynningar fyrir almenning í rúmar tvær vikur, til og með 29. janúar 2009, áður en þeim verður skilað inn til formlegrar umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.

Eftir samþykkt matsáætlunar verður gerð frummatsskýrsla.

Í frummatsskýrslunni verður fjallað um þá þætti umhverfisins sem hugsanlega geta orðið fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar, bæði á framkvæmdatíma og rekstrartíma. Lögð áhersla á náttúrufar, fornleifar, hljóðvist, landslag og sjónræna þætti, útivist, samgöngur og umhverfisáhrif á framkvæmdatíma.

Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Hægt er að koma ábendingum og athugasemdum við drög að tillögu að matsáætlun til verkfræðistofunnar Eflu á netfangið arni.bragason@efla.is með fyrirsögninni "Suðurlandsvegur – tvöföldun – Hveragerði - Selfoss

Suðurlandsvegur - Tvöföldun frá Hveragerði og austur fyrir Selfoss - Drög að matsáætlun