Fréttir
  • Reglur Vegagerðarinnar um snjómokstur

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar

margháttuð þjónusta en ólíklegt að hún aukist á næstunni

2.1.2009

Hér á vef Vegagerðarinnar má lesa hvernig vetrarþjónustu Vegagerðarinnar er háttað. Meðal annars má lesa snjómokstursreglurnar sem gilda á hverjum stað en þær eru margar og mismunandi. Allt frá því að mokað sé daglega í að mokað sé 2 daga í viku og þá bara vor og haust en ekki að vetri til. Þá eru nokkrir vegir sem ekki eru mokaðir.

Undanfarin ár hefur snjólétt tíðarfar leitt til þess að reglurnar hafa verið túlkaðar nokkuð rúmt og mokað þar sem samkvæmt reglanna hljóðan ætti ekki að moka. Þannig hefur þjónustan smátt og smátt aukist umfram snjómokstursreglurnar. Þetta ásamt fleiri þáttum hefur leitt til þess að meiru fé hefur verið varið til vetrarþjónustunnar en fjárveitingar leyfa.

Halli er á vetrarþjónustunni sem ekki var bættur á fjáraukalögum 2008. Í ljósi þess og almenns niðurskurðar ákvað yfirstjórn Vegagerðarinnar að nauðsynlegt væri að fara í öllu eftir snjómoksturreglunum og beita aðhaldi einsog kostur er. Ekki er heldur útlokað að skerða þurfi þjónustuna frá því sem nú er.

Hjá Vegagerðinni er mönnum ljóst að vegfarendur og landsmenn allir gera eðlilega auknar kröfur um bætta þjónustu á vegakerfinu. Vilji er til þess að bæta þjónustuna en það verður ekki gert án fjármagns.