Fréttir
  • Umferðin í október

Þróun umferðar

9% samdráttur umferðar milli októbermánuða 2007 og 2008 !

17.11.2008

Umferð dregst enn saman á 14 talningarstöðum Hringvegar.

Enn dregur til muna úr umferð á þeim 14 talningarstöðum sem bornir eru saman á Hringvegi. Meðalumferðin í október 2008 var 9,0% minni en á sama tíma árið 2007 og 4,4% minni en fyrir tveimur árum, eða árið 2006. Ef farið er enn lengra aftur í tímann er meðalumferðin í október þó 9,4% meiri en í sama mánuði árið 2005.

Ef horft er til staðsetningar teljara eftir landshlutum og borin er saman meðalumferð í október 2007 og 2008 má sjá að samdrátturinn er í öllum landshlutum:

Suðurland -10,9%

Höfuðborgarsvæðið -6,7%

Vesturland -11,4%

Norðurland -16,2%

Austurland -9,3% (ath. aðeins einn teljari á bak við þessa tölu)

Ef meðalumferðin er lögð saman, 10 fyrstu mánuði áranna 2005 - 2008, á áðurnefndum 14 talningarstöðum sést að heildarumferðin árið 2008 var um 3,1% minni en árið 2007 en aftur á móti 4,4% meiri en árið 2006, (sjá meðf. súlurit). Þetta stafar af því að meðalumferðin 2008 hefur, meirihluta ársins, verið meiri en árið 2006 þó hún hafi síðan dottið undir 2006 kúrfuna fyrir október eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

En ef marka má samanlagða heildarumferð árið 2008 gæti hér stefnt í tímamóta samdrátt, milli ára. Afar sjaldgæft er að umferðin dragist saman milli ára. Ef skoðaður er heildarakstur á þjóðvegum landsins frá árinu 1975 þá hefur það aðeins gerst þrisvar sinnum þ.e. milli áranna 1978 og 1979 um 1,1%, milli áranna 1982 og 1983 eða um 3,0% og loks milli áranna 1992 og 1993 um 0,2%.

Ef horft er fram hjá óverulegum samdrætti milli áranna 1992 og 1993 eru liðin 25 ár frá því að umferð dróst síðast saman milli ára, á þjóðvegum Íslands.

Hafa ber þó í huga að notast er við meðalumferð og við mjög fáa teljara. Á þjóðvegum landsins eru rúmlega 200 fastir talningastaðir og því getur þessi tala hæglega breyst þegar árið 2008 hefur verið gert upp.

Sjá tölulegar upplýsingar talningarstaða ásamt línu- og stöplaritum: Umferðartölur - Þróun 2005-2008