Fréttir
  • Arnkotludalur

Verk sem ekki næst að klára fyrir veturinn einsog fyrirhugað var

ekki næst að klára brú yfir Mjóafjörð og tæplega veginn um Arnkötludal

6.11.2008

61 Djúpvegur, Ísafjörður - Mjóifjörður: Þessu verki átti að vera lokið fyrir 1. nóvember s.l. Það er hins vegar ljóst að smíði brúarinnar yfir Mjóafjörð hefur tafist og verður smíðinni ekki lokið fyrr en næsta sumar. Enn er unnið að brúarsmíðinni en vinnu verður hætt á allra næstu vikum en mun hefjast aftur í vor um leið og tíðarfar leyfir. Vegurinn frá vegamótum við Eyrarfjall í Ísafirði og að Mjóafjarðarbrú ásamt brúnum í Reykjarfirði og Vatnsfirði er fullbúinn til notkunar með bundnu slitlagi alla leið.

605 Tröllatunguvegur (Arnkötludalur): Skv. útboðsgögnum á útlögn á neðra burðarlagi að vera lokið fyrir 1. desember n.k. Frágangur á neðra burðarlaginu á að vera þannig að hægt sé að heimila umferð yfir veturinn. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort umferð verði leyfð í vetur. Ýmislegt mælir á móti því að opna veginn og þá fyrst og fremst umferðaröryggismál þar sem ekki verður búið að koma fyrir vegriðum auk þess sem erfitt yrði með vetrarþjónustuna. Um þetta verður þó tekin ákvörðun fljótlega.

Um framhaldið er það að segja að skv. útboðsgögnum að vera komið fyrra lag klæðingar fyrir 15. júlí á næsta ári og þá á að leyfa almenna umferð á veginn. Verkinu á síðan að vera að fullu lokið fyrir 1. september 2009. Ekkert bendir enn þá til að þessar dagsetningar standist ekki.

85 Norðausturvegur, Brunahvammsháls-Bunguflói: Verkinu átti að ljúka 1. nóvember. Samkomulag er um við verktaka að vegna þess að ekki var hægt að hefja verk fyrr en í júní sl vegna snjóa, skyldi stefnt að því að vegurinn yrði akfær með burðarlagi í vetur og bundið slitlag lagt snemmsumars 2009. Búið að keyra út tæplega helmingnum af burðarlaginu. Enn er óljóst hvort tekst að koma umferðinni á veginn í haust en til þess að það geti orðið þarf tíðarfarið að vera gott í 2-3 vikur.

1 Hringvegur, Ármótasel – Skjöldólfsstaðir: Verkinu átti að ljúka 1. ágúst sl. Vegna erfiðra aðstæðna, snjóa og bleytu sl vor var gert samkomulag við verktaka að vegurinn yrði fær með burðarlagi fyrir veturinn og bundið slitlag lagt snemmsumars 2009. Neðra burðarlag er komið á veginn og var umferð var hleypt á hann 18. október. Eftir að ganga endanlega frá tengingum í báða enda vegarins og verður það gert næsta vor. Búið er að stika veginn og reiknað með að setja upp vegrið á ca 1 km á næstunni.