Fréttir
  • Hreinn Haraldsson vegamálstjóri fylgist með þegar Krisján Möller samgönguráðherra fær skæri hjá Karen Elizabeth Jóhannsdóttur

Tvöföld Reykjanesbraut vígð

opnað fyrir umferð á síðasta kaflann á sunnudaginn

20.10.2008

Sunnudaginn 19. október opnaði samgönguráðherra Kristján L. Möller síðasta kaflann í tvöföldun Reykjanesbrautar við Stapahverfi í Reykjanesbæ og vígði þar með tvöfalda Reykjanesbraut frá Hafnarfirði til Njarðvíkur. Að vígslu lokinni var umferð hleypt á þennan síðasta kafla.

Eftir að Jarðvélar efh sögðu sig frá síðari hluta verksins í árslok 2007 var samið var við Ístak hf. um byggingu nýju akbrautarinnar en við Eykt ehf. um smíði brúa. Verkið hefur gengið vel sem sést á því að umferð var hleypt á báðar akreinar hálfum mánuði á undan áætlun.

Fleiri myndir neðst.

Reykjanesbraut, breikkun. Hafnarfjörður - Njarðvík

Helstu staðreyndir um mannvirkið.

Breikkun Reykjanesbrautar fellst í, að lögð er ný tveggja akreina akbraut meðfram þeirri eldri en bygging hennar hófst árið 1961. Vegurinn var svo opnaður til almennrar umferðar 26. október 1965, þótt framkvæmdinni hafi ekki að fullu verið lokið. Sú akbraut var úr steinsteypu en sú nýja er með malbiksslitlagi. Jafnframt voru öll gatnamót á leiðinni gerð mislæg.

Mislægu gatnamótin eru svipuð að formi til eða svokölluð tígulgatnamót þar sem hringtorg sitt hvoru megin Reykjanes­brautar tengja saman að- og fráreinar annars vegar og þverveg undir brautina hins vegar. Byggð er ein brú í hvorri akbraut, þ.e. tvær á hverjum gatnamótum.

Fyrri áfangi. Hvassahraun – Strandarheiði

Framkvæmdir við þennan fyrsta áfanga hófust 11. janúar 2003 og lauk í október 2004. Mörk verkframkvæmdar voru annars vegar við mörk Hafnarfjarðar og Vatnsleysu­strandahrepps og hins vegar um 3 km austan Vogavegar. Samtals um 12,1 km þar með talinn fléttukafli við báða enda.

Í framkvæmdinni fólst gerð nýrrar tveggja akreina akbrautar, gerð tvennra mislægra gatnamóta, færsla á Vatnsleysustrandavegi, gerð um 1 km malarvegar í átt að Höskuldar­völlum og lagfæring á öryggissvæði með núverandi akbraut.

Útboð fór fram á haustdögum 2002 og var þá boðinn út 8,6 km. kafli. Lægsta tilboð áttu Háfell ehf., Jarðvélar ehf. og Eykt ehf. Samningur var undirritaður í byrjun des. 2002 og framkvæmdir hófust 11. jan. 2003. Vegna hagstæðs tilboðs og hagstæðra aðstæðna við efnisvinnslu var ákveðið að semja við verktakann um 3,5 km viðbót við verkið þannig að alls er þessi áfangi 12,1 km.

Helstu magntölur:

Vegagerð:

Skeringar 131.000 m3
Fyllingar 385.000 m3
Burðarlög 134.000 m3
Malb. fletir 125.000 m2

Steypt mannvirki:

Mótafletir 2.600 m2
Járnalögn 180.000 kg.
Steinsteypa 1.100 m3

Áætlaður kostnaður: ( Verðlag 2004)

Vegagerð 805 millj.kr.
Steypt mannvirki 127 millj.kr.
Landbætur, efni o. fl. 59 millj.kr.
Umhv.mat, hönnun, umsjón, eftirlit o.fl. 179 millj.kr.
Samtals: 1.170 millj.kr.

Helstu hönnuðir og ráðgjafar:

Hönnun hf. - Umhverfismat, frumdrög
HNIT hf, verkfræðistofa Aðalráðgjafi, - veghönnun
Fjölhönnun ehf - Brúarhönnun, veghönnun
Rafteikning hf - Lýsing,
ARKÞING - Útlit brúa
Landslag ehf - Landslagsmótun
Stuðull ehf. - Jarðfræðiathuganir
Vinnustofan Þverá ehf. - Umferðartækni, merkingar

Aðalverktakar:

Háfell ehf - Jarðvinna
Jarðvélar ehf - Jarðvinna
Eykt ehf - Brúarsmíði

Eftirlit:

VSÓ Ráðgjöf/ VSB Verkfræðistofa
Auk þess hafa fjölmargir starfsmenn Vegagerðarinnar komið að þessu verki.

Seinni áfangi. Strandarheiði – Njarðvík

Þessi áfangi hefst þar sem fyrsta áfanga sleppir um 3 km austan við vegamót við Voga og nær að Fitjum í Njarðvík, Reykjanesbæ. Alls 12.8 km með fléttusvæði við Fitjar.

Í upphaflegu útboði var gert ráð fyrir þrennum mislægum gatnamótum, þ.e. við Vogaveg, Grindavíkurveg og við Njarðvík. Einnig eru tvær brýr yfir Skógfellaveg. Með í útboðinu var endurbygging á Grindavíkurvegi á um 600 m. kafla og lagfæringar á öryggissvæðum með eldri akbraut. Á verktíma bættust við ein mislæg gatnamót við nýtt hverfi í Reykjanesbæ, Stapahverfi.

Verkið var boðið út í september 2005 og miðað við verklok í júní 2008. Í útboðinu voru ákvæði um um flýtifé til verktaka ef tækist að ljúka verkinu fyrir 1. október 2007. Samið var við lægstbjóðanda, Jarðvélar ehf og framkvæmdir hófust í janúar 2007. Undirverktaki Jarðvéla við brúarsmíði var Eykt ehf.

Á miðju ári 2007 fór að bera á erfiðleikum hjá Jarðvélum ehf og fór svo að fyrirtækið sagði sig af verkinu í desember 2007 og fór í gjaldþrot skömmu síðar. Það sem eftir stóð af framkvæmdinni var boðið út að nýju vorið 2008, þó að undanskyldri brúarsmíði en samið var við fyrri undirverktaka Jarðvéla, Eykt ehf, um að ljúka smíði þeirra tveggja brúa sem eftir var að byggja. Samið var við ÍSTAK hf um að ljúka verkinu og hófu þeir framkvæmdir í byrjun maí og hafa unnið sleitulaust síðan.

Í útboðsgögnum er skilyrt að umferð verði komin á allt mannvirkið um miðjan október 2008 en vegna tafa við gerð verksamnings var sá tími lengdur til 1. nóvember 2008 þannig að verkið er um 2. vikum á undan áætlun. Ýmis frágangsvinna utan vega er eftir og einnig tenging við Stapahverfi. Endanleg verklok eru áætluð skv. útboðsgögnum þann 31. maí 2009.

Helstu magntölur:

Vegagerð:

Skeringar 442.000 m3
Fyllingar 383.000 m3
Burðarlög 173.000 m3
Malb. fletir 180.000 m2

Steypt mannvirki:

Mótafletir 6.030 m2
Járnalögn 395.000 kg.
Steinsteypa 2.460 m3

Áætlaður kostnaður:

Vegagerð 1.800 millj.kr.
Steypt mannvirki 500 millj.kr.
Efni, landbætur, umferðamerkingar o. fl.. 120 millj.kr.
Umhv.mat, hönnun, umsjón, eftirlit o.fl. 80 millj.kr.
Samtals: 2.500 millj.kr.

Helstu hönnuðir og ráðgjafar:

Hönnun hf. - Umhverfismat, frumdrög
HNIT hf, verkfræðistofa - Aðalráðgjafi, veghönnun
Fjölhönnun ehf - Brúarhönnun, veghönnun
Rafteikning hf - Lýsing,
ARKÞING - Útlit brúa
Landslag ehf - Landslagsmótun
Stuðull ehf. - Jarðfræðiathuganir
Vinnustofan Þverá ehf. - Umferðartækni, merkingar

Aðalverktakar:

ÍSTAK hf - Jarðvinna
Jarðvélar ehf - Jarðvinna
Eykt ehf - Brúarsmíði
H.K. Haralds ehf - Umferðamerkingar

Eftirlit:

Mannvit , verkfræðistofa

Auk þess hafa fjölmargir starfsmenn Vegagerðarinnar komið að þessu verki.

Rbraut0053

Rbraut0060

 

 

 

Rbraut0065