Fréttir
  • Klipping

Vígsla nýs vegar um Hrútafjarðarbotn

síðasta einbreiða brúin á leiðinni Reykjavík – Akureyri aflögð

10.10.2008

Miðvikudaginn 8. október opnaði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri formlega nýjan veg um Hrútafjarðarbotn. Samgönguráðherra Kristján L. Möller átti ekki heimangengt. Hreini til aðstoðar var Jón Rögnvaldsson fyrrverandi vegamálastjóri. Athöfnin fór fram á veginum við nýja brú yfir Hrútafjarðará.

Með nýja veginum og nýrri brú sem leysir af hólmi gamla einbreiða brú á Síká er Hringvegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar allur tveggja akreina. Síðasta einbreiða brúin er aflögð en á síðasta ári var tekinn í notkun nýr vegur um Norðurárdal í Skagafirði og þar með voru aflagðar fjórar einbreiðar brýr.

Nýi vegurinn styttir Hringveginn lítið sem ekkert en hinsvegar styttist leiðin milli Vestfjarða og Norðurlands um tæpa níu kílómetra.

Á undanförnum 5 árum eða svo hefur verið unnið að þremur stórum nýframkvæmdum á Hringvegi í Norðvesturkjördæmi, en þau eru um 16,8 km langur kafli í Stafholtstungum og Norðurárdal í Borgarfirði, 15 km langur kafli í Norðurárdal í Skagafirði og síðan þann kafla sem formlega verður vígður n.k. miðvikudag, nýr vegur um Hrútafjarðarbotn. Umræddir kaflar hafa verið taldir hvað hættulegastir á Hringveginum milli Borgarness og Akureyrar.

Vinna við endurgerð vegarins í Borgarfirði, sem liggur frá Gljúfurá í Stafholtstungum að Hraunsnefi í Norðurárdal, hefur staðið yfir frá árinu 2004 og lýkur að fullu á næsta ári. Framkvæmdum í Norðurárdal í Skagafirði lauk á síðasta ári. Framkvæmdir við hringveginn um Hrútafjarðarbotn hófust í fyrra og er u.þ.b. að ljúka um þessar mundir. Með þessum þremur framkvæmdum mun umferðaröryggi aukast til muna og er framkvæmdin í Hrútafirði táknræn þar sem með henni er síðustu einbreiðu brúnni útrýmt af Hringvegi á milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Nýi vegurinn um Hrútafjörð sem leysir af hólmi eldri veg er lá mun sunnar fyrir fjörð, er 6,9 km langur og byrjar rétt sunnan við Brú og fylgir veglínu Djúpvegar norður undir Fögrubrekku þar sem hann þverar Hrútafjarðarbotninn með nýrri brú yfir Hrútafjarðará og endar við Brandagil rétt norðan Staðar. Samhliða þessu verki var gerð ný 1,6 km löng tenging við Djúpveg.

Hringvegurinn styttist lítið sem ekkert við þessa framkvæmd, en hins vegar styttist vegtenging milli Vestfjarða og Norðurlands um tæpa 9 km.

Hringvegurinn er byggður í vegflokki B3, með heildarbreidd 8,5 m en þar af er akbrautin 6,5 m breið. Djúpvegurinn er byggður í vegflokki C1, með heildarbreidd 7,5 m og akbrautarbreidd 6,5 m. Tvær brýr, Ormsá og Selá, voru fyrir á þeim kafla sem áður var Djúpvegur. Brúin yfir Ormsá nýttist að mestu óbreytt, en ný brú var byggð yfir Selá.Vinnuflokkur Vegagerðarinnar vann það verk 2006. Samhliða þessu verki var byggð ný brú yfir Hrútafjarðará .

Hönnun vegarins var í umsjá veghönnunardeildar Vegagerðarinnar. Brúadeild Vegagerðarinnar í Reykjavík sá um brúahönnun..

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sá um smíði brúarinnar yfir Hrútafjarðará og hófst vinna við smíði hennar í október 2007. Brúin er með 8,5 m breið og 62m löng með einum millistöpli.

Vegagerð var boðin út í október 2007. Samið var við Skagfirska verktaka ehf. um verkið og hófust framkvæmdir skömmu síðar.

Eftirlit og umsjón með þessari framkvæmd var í höndum nýframkvæmdadeildar Vegagerðarinnar á Norðvestursvæði. 

hopurinn