Fréttir
  • Suðurlandsvegur

Fréttatilkynning vegna Suðurlandsvegar

vegna umræðunnar undanfarna daga

13.8.2008

Boltinn gengur á milli

Í kjölfar umræðu um tvöföldun Suðurlandsvegar vill Vegagerðin taka eftirfarandi fram:

Um leið og ákvörðun hafði verið tekin um tvöföldun Suðurlandsvegar var farið að ræða hvernig best væri að standa að verki þannig að framkvæmdir gætu hafist sem fyrst. Það var strax ljóst að undirbúningstími fyrir kaflann yfir Hellisheiði yrði mun styttri en fyrir kaflann milli Hveragerðis og Selfoss og fyrir kaflann næst Reykjavík.

Ákvörðun um að byrja á heiðinni byggist því eingöngu á því að stjórnvöld vilja koma verkinu sem fyrst í gang. Sú ákvörðun á ekki að hafa áhrif á hvenær unnt verður að hefja framkvæmdir á milli Hveragerðis og Selfoss. Þar ráða önnur atriði.

Skipulagsvinna á leiðinni Hveragerði – Selfoss er flókin og erfið til dæmis sökum fjölda tenginga inn á veginn og sökum þess að þörf er á nokkuð mörgum km af hliðarvegum.

Í þessari vinnu gengur boltinn á milli manna, milli Vegagerðar og sveitarfélaganna, sem hafa hið endanlega skipulagsvald. Sú vinna hófst á síðasta ári og sl. vetur lagði Vegagerðin fram sínar tillögur um legu vegarins, staðsetningu vegamóta og hliðarvega o.s.frv. Þá urðu sveitarfélögin og Vegagerðin ásátt um legu vegarins og staðsetningu vegamóta í grófum dráttum en fínslípa þarf þær hugmyndir og hefur verið unnið að því síðan bæði af hálfu Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna. Aðilar eiga eftir að setjast saman og ganga endanlega frá málinu en þess er að vænta að það verði hægt fljótlega. Að því loknu fer hið formlega skipulagsferli í gang og einnig vinna við mat á umhverfisáhrifum og hönnun vegarins.

Á kaflanum Hólmsá – Hveragerði er nú unnið að frummatsskýrslu vegna umhverfismats í samræmi við staðfesta matsáætlun og verður hún tilbúin á næstu vikum. Reikna má með að á næsta misseri ljúki matsvinnunni og þá verði hægt að bjóða verkið út.

Stefnt er að því að setja upp hraðamyndavélar á kaflanum á milli Hveragerðis og Selfoss. Þegar hafa verið settar upp 9 hraðamyndavélar á landinu af þeim 16 sem ætlunin er að setja upp í 1. áfanga umferðaröryggisáætlunar. Útboðsferli er nú í gangi vegna kaupa á vélunum sem eftir er að setja upp að þessu sinni. Þá hefur Vegagerðin ákveðið að skoða möguleika á því að breikka veginn við helstu vegamót á þessari leið.

Fréttatillkynning send fjölmiðlum eftir hádegi 13. ágúst