Fréttir

Nokkrar staðreyndir um aksturs- og hvíldartíma

Vill brenna við að rangt sé með farið

8.4.2008

Í umræðu síðustu daga hefur því hvað eftir annað verið haldið fram að flutningabílstjórar gætu lent í því að verða að stöðva á Holtavörðuheiðinni og bíða í 45 mínútur. Þetta gengur ekki upp og er rangt.

Samkvæmt aksturs- og hvíldartímareglunum, sem hafa verið í gildi í nánast óbreyttar í átta ár, verður ökumaður að taka 45 mínútna hvíld fyrir hverja 4,5 klst sem hann ekur. Einungis er miðað við akstur en ekki þegar verið er að lesta bílinn, svo dæmi sé tekið. Það dugir því gott betur en til að komast yfir Holtavörðuheiðina.

Reglur þær um aksturs- og hvíldartíma sem nú eru gagnrýndar hafa verið í gildi síðan árið 2000, þeim var lítillega breytt árið 2006. Samkvæmt þeim gildir sú meginregla flestra launamanna að þeir eiga rétt á 11 tíma hvíld á sólarhring en þó mega ökumenn tvisvar í viku stytta þann hvíldartíma niður í 9 tíma.

Varðandi aksturstímann sérstaklega þá skulu menn á hverjum samfelldum 4,5 tímum í akstri taka sér 45 mínútna hvíld. Henni má skipta í þrennt og taka hvenær sem er á þessum 4,5 tímum. Menn mega í allt keyra í níu tíma á sólarhring og þá er ekki verið að tala um þann tíma sem það tekur að lesta bílinn. Einungis þann tíma sem bílstjórinn er að keyra bílinn. Tvo daga í viku má lengja þennan tíma í 10 tíma.

Það þarf enginn að stöðva á Holtavörðuheiðinni og horfa niður á Brú. Fari maður úr Reykjavík og norður, telst einungis sá tími þegar ekið er. Fullnægja má hvíldinni með 15 mínútna stoppi í Borgarnesi og hálftíma í nefndri Brú, svo dæmi sé tekið. Þá hefst annað 4,5 tíma tímabil og því varla snúið að aka áfram hvort heldur er á Ísafjörð eða Akureyri.

Vegagerðin hefur ekki farið eftir stífasta bókstaf reglnanna enda felst ákveðið svigrúm í sektarreglugerð samgönguráðherra.

Á vegum landsins er fjöldi staða þar sem hægt er að stöðva bílinn og hvílast. Þeir sem hafa atvinnu af því að keyra um vegina hljóta að þekkja til þessara staða. Þótt ekki séu sjoppur á þeim öllum eru aðrar leiðir færar.

Eflaust má bæta þjónustu á áningarstöðum verulega en það er önnur og stærri spurning sem Vegagerðin svarar ekki því í það þyrfti þá að leggja mikið fé. Það er Alþingis að taka ákvörðun um það.

Rétt er að hafa í huga að reglurnar um hvíldar- og aksturstíma eru settar til að auka umferðaröryggi í flutningum, til að tryggja jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja í þessum rekstri og koma á samræmdri vinnulöggjöf ökumanna.