Fréttir
  • Sundabraut jarðgangalausn

Talað skýrt um Sundabraut

Jarðgöng kosta 24 milljarða króna, 9 milljörðum meira en Eyjalausn

10.1.2008

Sundabraut hefur verið lengi í undirbúningi og margir kostir skoðaðir. Fljótlega í ferlinu var kostunum fækkað þar til eftir stóðu tveir kostir, ytri leið eða Leið I, þar sem hábrú var ein lausnin og svo innri leið, Leið III, þar sem eyjalausn var einn kostur af mörgum. Í upphafi var jarðgangalausn skoðuð en þá þótti hún ekki leysa umferðarmálin nægilega vel auk þess sem hún væri einn af dýrari kostunum. Þegar umhverfisáhrif leiðanna tveggja höfðu verið metin taldi Vegagerðin innri leiðina betri kost þar sem umferðarmálin væru a.m.k. ekki lakari, leiðin væri ódýrari, auðveldari í útfærslu og rekstrarkostnaður líklega minni.

Fyrir um tveimur árum óskaði Reykjavíkurborg eftir því að jarðgangalausnin væri aftur tekin til skoðunar. Vegagerðin taldi sjálfsagt að verða við þeirri ósk enda mikilvægt að sem flestir kostir séu skoðaðir þegar verk af þessari stærðargráðu er undirbúið. Í fyrstu athugun var talið að kostnaður gæti orðið minni en fyrri athuganir bentu til, en yrði eigi að síður töluvert meiri en við eyjalausnin og yrði þar að auki lakari lausn varðandi umferðina.

Athugun er nú að fullu lokið og ljóst að jarðgangagerðin er tæknilega möguleg en kostnaður er hinsvegar mun meiri en áður var eða um 24 milljarðar króna með vegtengingum. Jarðgangalausnin er þannig um 9 milljörðum króna dýrari kostur en eyjalausnin.

Fyrir þennan mismun upp á 9 milljarða mætti gera mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, leggja Miklubraut í stokk vestur fyrir Lönguhlíð og Kringlumýrarbraut í stokk suður fyrir Listabraut.

Til viðbótar er rekstrarkostnaður ganganna töluverður, mun meiri en t.d. af Hvalfjarðargöngum, þar sem í raun er um tvenn göng að ræða (2+2) og öryggiskröfur yrðu ríkari í Sundagöngum vegna margfalt meiri umferðar. Giska má á að rekstur ganganna myndi kosta a.m.k. 200 milljónum króna meira á ári en rekstur lausnar á innri leið.

Eyjalausnin felur ekki í sér að umferð verði aukin um Skeiðarvog eins og íbúar óttast en að sjálfsögðu mun Sundabrautin breyta umferðinni hvar sem hún kemur upp. Röskunin verður eigi að síður mun meiri með jarðgöngunum en eyjalausn þar sem gangamunnar verða fjórir þar af þrír vestan megin, helmingur ganganna mun liggja undir borginni og byggja þarf veg út í sjó við Laugarnesið til að tengja göngin við Kringlumýrarbrautina.

Niðurstaða Vegagerðarinnar er að innri leiðin, eyjalausnin er tæknilega, fjárhagslega og umferðarlega mun betri kostur en jarðgangaleiðin og gefur miklu meiri arðsemi af því fjármagni sem til framkvæmdanna er varið. Það er því alveg ljóst að Vegagerðin getur ekki mælt með að jarðgangalausn verði valin.

Ljóst er að komið er að ákvörðun um þessa framkvæmd. Undanfarin ár hafa ýmsir kostir verið skoðaðir að ósk Reykjavíkurborgar og ekki staðið á aðgerðum eða vilja samgönguyfirvalda. Afstaða Vegagerðarinnar er alveg skýr og nú er komið að stjórnmálamönnum að taka af skarið og taka ákvörðun um lausn og hugsanlega kostnaðarskiptingu.

Grein send til birtingar í fjölmiðlum 8. janúar


Eyjalausn