Fréttir
  • Snjómokstur á Hellisheiði

Hvað er menntaskóli, hvenær er skólatími?

vegna athugasemdar sem barst menntamálaráðuneytinu

27.12.2007

Að gefnu tilefni er áréttað að túlkun Vegagerðarinnar er sú að menntaskóli sé orð yfir framhaldsskóla, þ.e. næsta stig menntakerfis á eftir grunnskóla og eru þá meðtaldir fjölbrautaskólar, Verslunarskólinn, Kvennaskólinn, verkmenntaskólar og iðnskólar.

Einnig að grunnskólar og framhaldsskólar standa venjulega yfir frá lok ágústmánuðar og til loka maímánaðar og er átt við það tímabil og alla daga vikunnar en ekki einungis virka daga vikunnar á því tímabili.

Ástæða áréttingarinnar er athugasemd sem menntamálaráðuneytið fékk vegna framkvæmdar á samningi um sérleyfisakstur á Suðurlandi.

Vegagerðinni barst erindi frá menntamálaráðuneytinu í byrjun desember vegna athugasemdar sem ráðuneytinu hafði borist vegna framkvæmdar samnings milli Vegagerðarinnar og Þingvallaleiðar vegna þröngrar túlkunar sérleyfishafans á því hvað teldist menntaskóli og hvenær skólatími stæði yfir, en á því byggist afsláttur sem skólafólki er gefinn samkvæmt samningi.

Vegagerðin sendi því Þingvallaleið þessa áréttingu og reiknar með að misskilningur varðandi framangreind atriði hafi verið leiðréttur og að nemendur framhaldsskóla njóti afsláttarins. Nemendur 12 ára og eldri skulu að hámarki greiða 70 prósent af hæsta fargjaldi meðan skóli stendur yfir.