Fréttir
  • Vetrarfærð

Flughálka eða hálkublettir - mismunandi þjónusta Vegagerðarinnar

mikið af upplýsingum er að finna hér á vefnum

28.11.2007

Það vill brenna við þegar Vetur konungur heldur innreið sína að Íslendingar séu svolítið óviðbúnir. Þá reynir gjarnan á aksturshæfileikana en því miður duga þeir ekki alltaf til.

Vegagerðin kannar ástand vega og kemur þeim upplýsingum til almennings, þ.e.a.s. hvort greiðfært sé, hálkublettir eða flughálka svo dæmi séu tekin. Þetta þekkja flestir en hinsvegar vita ef til vill færri að þjónustustig Vegagerðarinnar eru mörg og mismunandi. Það fer eftir eðli vega en mest eftir umferðinni hvaða þjónusta er veitt.

Suma vegi stefnir Vegagerðin að hálkuverja alltaf, annarsstaðar er ef til vill einungis mokað tvisvar í viku, eða það er brugðist við flughálku en ekki hálku, samkvæmt ákveðnum skilgreiningum. Það getur verið gott fyrir vegfarendur að kynna sér hver þjónustan er á hverjum stað áður en ferð hefst.

Á vef Vegagerðarinnar má finna þetta allt saman auk upplýsinga um veður og færð. Ef farið er í flipann “Umferð og færð” getur notandinn skoðað hvernig “snjómokstri” er háttað og hver önnur þjónusta er á veturna. Með því að kynna sér “vinnureglur” má sjá hvernig mismunandi kaflar vegakerfisins eru þjónustaðir, flokkar segja til um hvort vegir séu eingöngu hálkuvarðir vegna flughálku eða bæði í hálku og flughálku.

Vegagerðin hefur sett upp þétt net veðurmæla um allt land og er þá að finna undir flipanum um “Umferð og færð”-“Veðurstöðvar”.

En ef til vill er samt þægilegasta lausnin fyrir vegfaranda sem vill kynna sér ástandið á þeirri leið sem hann er að fara að opna vefmyndavél sem sýnir ástandið á veginum og veðrið, með reglulegu millibili. Myndavélar hafa verið settar upp á ríflega 20 stöðum, oftast á fjallvegum og má nefna Hellisheiðina hér fyrir sunnan og Holtavörðuheiði. Þrjár myndavélar eru á hverjum stað sem sýna veginn í báðar áttir og einnig beint niður á veginn.

Með því að bregða sér á vefinn geta menn í sviphendingu séð út í hvað menn eru að leggja. Að sjálfsögðu er einnig hægt að hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar 1777 frá 6:30 til 22:00 á veturna eða í símsvarann 1779. Aðalatriði er þó að keyra eftir aðstæðum hverju sinni, kynna sér færð og veður og vera á bíl útbúnum fyrir það sem að höndum getur borið.