Fréttir
  • Hallsvegur - Úlfarfellsvegur

Hallsvegur, Úlfarsfellsvegur og mislæg gatnamót við Vesturlandsveg - Drög að tillögu að matsáætlun

29.10.2007

Vegagerðin og Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar kynna hér drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við mislæg gatnamót við Vesturlandsveg, Hallsveg og Úlfarfellsveg.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að tengja Grafarvogshverfi ásamt hverfunum í Hamrahlíðum og Úlfarsárdal við Vesturlandsveg og tengja hverfin innbyrðis.

Framkvæmdin felst í lagningu nýs kafla Hallsvegar frá Víkurvegi að Vesturlandsvegi með brú yfir Korpu, lagningu Úlfarsfellsvegar í beinu framhaldi af Hallsvegi og gerð mislægra gatnamóta yfir Vesturlandsveg. Í drögum að tillögu að matsáætlun er sagt frá því hvaða atriði er áætlað að verði til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Hægt er að senda ábendingar og athugasemdir um drögin á netfangið til Sverris Bollasonar hjá VSÓ Ráðgjöf (netfang sverrirb@vso.is).

Frestur til að gera athugasemdir er til og með 12. nóvember 2007. (framlengt til 19. nóvember 2007)

Sjá: Drög að tillögu að matsáætlun

Samgönguáætlun og framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar

Hallsvegur og mislæg gatnamót við Vesturlandsveg eru á samgönguáætlun 2003-2014 á 2. tímabili áætlunarinnar, frá 2007-2010. Fjárveiting er þó ekki í nýrri vegaáætlun fyrir árin 2007-2010 en gera má ráð fyrir henni á árunum tímabilinu 2011-2014.

Úlfarsfellsvegur fer væntanlega ekki inn á framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar næsta árs en gert er ráð fyrir að tekið verði mið af þróun byggðar varðandi lagningu vegarins.

Matsferlið

Framkvæmdin er matsskyld sem stofnbraut í þéttbýli samkvæmt 1. viðauka í lögum nr. 106/2000, tölulið 10.i, um mat á umhverfisáhrifum.

Áður hafa verið metin umhverfisáhrif Hallsvegar milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar, sem lauk með úrskurði umhverfisráðherra í 13. maí 2002 og tvöföldun Vesturlandsvegar sem lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar 9. janúar 2004.

Drög að tillögu að matsáætlun verða send íbúasamtökum, hverfisráði og lögbundnum umsagnaraðilum til kynningar. Áætlað er að matsferlinu ljúki á miðju næsta ári (júlí 2008).