Fréttir
  • Skýrslur

Greiðfærir og rannsakaðir vegir

vegna umræðu um Lyngdalsheiðarveg (Gjábakkaveg)

3.9.2007

Nokkuð sérstök umræða á sér stað þessa dagana um Lyngdalsheiðarveg sem gjarnan er nefndur Gjábakkavegur. Þessi nýi vegur hefur í tvígang farið í mat á umhverfisáhrifum og eftir kæruferli úrskurðaði umhverfisráðherra í maí og heimilaði vegalagninguna. Sá úrskurður er endanlegur og ekki kæranlegur nema fyrir dómstólum.

Vegna misskilnings Fréttablaðsins í frétt miðvikudaginn 29. ágúst heldur Guðmundur Andri Thorsson því fram í grein í Fréttablaðinu í dag að af Vegagerðinni séu “vísindamenn vegnir og léttvægir fundnir, nánast eins og kverúlantar” og að vísindamenn séu “bara einhverjir menn “sem hafa álit á málinu””. Þetta er alrangt. Fjölþætt samráð hefur verið haft við vísindamenn í þessu langa og mikla ferli sem mat á umhverfisáhrifum er, þar á meðal við Pétur M. Jónasson. Vegagerðin hefur svarað öllum athugasemdum sem fram hafa komið vegna matsskýrslunnar svo sem vera ber. Framkvæmastjóri hjá Vegagerðinni svaraði því hinsvegar aðspurður að Vegagerðin svaraði ekki öllum þeim sem hafa álit á framkvæmdinni og senda athugasemdir sínar eitthvað annað en til Vegagerðarinnar. Það er til dæmis ekki Vegagerðarinnar að svara áliti vatnalíffræðinganna sem beindu athugasemdum sínum beint til umhverfisráðuneytisins.

Eðlilega hafa menn áhyggjur af Þingvöllum og ber þjóðinni auðvitað að vernda þjóðgarð sinn, sérstaklega nú þegar hann er kominn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Rök á móti Lyngdalsheiðarvegi hafa þau heyrst að Þingvellir gætu fallið út af heimsminjaskránni og að jafnvel kæmist Surtsey ekki á sömu skrá út af þessum nýja vegi, sem liggur reyndar allur utan þjóðgarðsins og fjær Þingvallavatni en núverandi vegur.

Vissulega mun umferð aukast og þá sérstaklega af heimamönnum í Bláskógabyggð með tilkomu Lyngdalsheiðarvegar. En það er líka staðreynd að straumur ferðamanna á staði sem skráðir eru á heimsminjaskrána eykst og þar af leiðandi líka umferð. Þess vegna er það þversögn að halda því fram að aukin umferð leiði til þess að Þingvellir falli útaf heimsminjaskránni, því það myndi þá gerast í kjölfar skráningar með auknum fjölda ferðamanna. Og þá tilgangslaust að koma þjóðgarðinum á skrána í upphafi.

Menn hafa áhyggjur af köfnunarefnismengun vegna umferðar um nýja veginn og þá vegna loftaðborinnar köfnunarefnismengun, eins og það heitir í úrskurði umhverfisráðherra.. Umhverfisstofnun hefur í sínum umsögnum bent á að fleira komi til en umferð sbr.:

„ekki sé talin hætta á að niturmengun af völdum umferðar á Gjábakkavegi einum og sér muni hafa áhrif á vatnsgæði og tærleika Þingvallavatns. Helstu álagsþættir til aukinnar köfnunarefnisákomu séu uppblástur, áburðarnotkun, skólp og loftaðborin ákoma. Einnig sé Nesjavallavirkjun talin losa með vatni töluvert af köfnunarefni. Erfitt sé að meta losun niturs út í loftið af völdum umferðar og enn erfiðara að meta hversu stór hluti þeirrar losunar berst út í vatnið. Aukin umferð um svæðið í heild sinni, t.d. vegna skráningar Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO, muni auka hlut umferðar í niturmengun á svæðinu og sé að mati Umhverfisstofnunar full þörf á að meta hugsanlega áhrif þess á Þingvallavatn. Hins vegar telur Umhverfisstofnun að bygging Gjábakkavegar muni ekki valda umtalsverðri mengun á vatnasviði Þingvallavatns.”
(Úr fyrri matsskýrslu 2.9.2004 og áréttað í matsskýrslu í des. 2005)

Það skilyrði var eigi að síður sett í úrskurði umhverfisráðherra að Vegagerðinni beri að mæla loftaðborna köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir hefjast og í fimm ár eftir að framkvæmdum lýkur. 

Þá er rétt að taka fram að engin áform eru um að hækka hámarkshraðann innan þjóðgarðsins en hann er 50 km á klst. Aukin umferð flutningabíla á þessari leið verður því að teljast afar ólíkleg. Auk þess mætti einfaldlega banna umferð flutningabíla um þjóðgarðinn.