Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Mismunur milli ára
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Samanlögð umferð á árinu

Gríðarleg aukning umferðar á Hringveginum í apríl

Aldrei meiri umferð mælst í apríl

2.5.2016

Umferðin á Hringveginum í apríl jókst um rúmlega 15 prósent frá sama mánuði í fyrra. Þetta er mesta aukning sem hefur mælst í aprílmánuði og umferðin hefur aldrei verið meiri í þeim mánuði. Þetta er mjög mikil aukning. Sama á við um fyrstu fjóra mánuði ársins þar sem umferðin hefur aukist um meira en 16 prósent sem er líka metaukning. Nú stefnir í að umferðin geti aukist um 8,5 prósent í ár.

Breyting milli mánaða 2015 og 2016
Enn eykst umferðin mikið á milli mánaða.  Nú jókst umferðin um rúmlega 15% milli apríl mánaða 2015 og 2016, þetta er hlutfallslega mesta aukning sem mælst hefur á milli aprílmánaða frá því að Vegagerðin hóf þessa samantekt árið 2005. Umferðin hefur aldrei áður mælst eins mikil í apríl mánuði. 

Eins og áður eykst umferð í öllum landssvæðum og mest um Austurland eða um 26% en minnst um Norðurland eða um 9,3%.
Annan mánuðinn í röð eykst umferðin hlutfallslega mest um teljara á Mýrdalssandi eða tæp 33%. Svo virðist sem draga megi þá ályktun að aukinn ferðamannastraumur (erlendra ferðamanna) að Jökulsárlóni geti verið höfuð orsök þessarar miklu aukningar á þessum stað.

Samanburðurinn

Breyting milli ára 2015 og 2016
Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 16,3%, sem er nýtt met miðað við árstíma.  Gamla metið var frá síðasta ári en þá hafði umferðin aukist um 12,1% á sama tíma miðað við árið á undan.  Eins og undanfarið hefur umferðin aukist mest um teljara á Austurlandi eða um 33% en minnst hefur umferðin aukist um höfuðborgarsvæðið, frá áramótum, eða um 14%.  

Breyting umferð eftir vikudögum
Umferðin hefur aukist mest á sunnudögum, miðað við. árstíma borið saman við árið á undan eða um 26,3%.  Minnst hefur aukingin orðið á föstudögum. Flest ökutæki eru á ferðinni um Hringveginn á föstudögum en fæst á þriðjudögum.  Umferðin á miðvikudögum er næst meðalumferðinni, það sem af er ári.

Horfur út árið 2016 miðað við síðasta ár
Í samræmi við venju hefur Vegagerðin ekki birt eða fjallað um spá (á Hringvegi) út árið fyrr en að apríl mánuði loknum. Það er því í fyrsta sinn nú að fjallað eru um horfurnar út árið. Nú gerir spálíkan Vegagerðarinnar ráð fyrir því að umferðin á Hringveginum geti aukist um 8,5% miðað við árið 2015. Gangi þessi spá eftir yrði enn eitt metið slegið þ.e.a.s. umferðin hefur aldrei áður aukist svo mikið á milli ára.  Núverandi met er 6,8% aukning á milli áranna 2007 og 2008. Margar ástæður kunna að liggja að baki en helst mætti draga þá ályktun að þessi mikla aukning stafaði af miklum vexti hagkerfisins, mikilli aukningu ferðamanna sem og hagstæðu verði á bensíni.

Hafa skal í huga að umferðin um Hringveginn er lang mest á sumrin því er enn talsverð óvissa í þessara spá.

Talnaefni