Fréttir
  • Meðalumferð í höfuðborginni til september 2015

Nýliðinn september var met mánuður í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu

5.10.2015

Nýliðinn september var met mánuður í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu skv. þremur mælisniðum Vegagerðarinnar.  Alls fóru rúmlega 1 milljón ökutækja yfir mælisniðin þrjú á viku eða tæplega 4,5 milljónir ökutækja í mánuðinum öllum.

Milli mánaða 2014 og 2015
Mikil aukning varð í umferð, milli septembermánaða, um höfuðborgarsvæðið skv. þremur mælisniðum Vegagerðarinnar eða 6,3%. Þessi aukning varð til þess að nýtt met var slegið í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu þar sem aldrei hafa mælst fleiri ökutæki fara daglega yfir mælisnið Vegagerðarinnar í einum mánuði, eða að jafnaði 148.975(ökutæki/sólarhring). Þessi bílafjöldi felur það í sér að vikulega óku rúmlega 1 milljón ökutækja um mælisniðin 3 á höfuðborgarsvæðinu eða tæplega 4,5 milljónir í heild, í mánuðinum.
Mest jókst umferð á Vesturlandsvegi, ofan Ártúnsbrekku eð a 8,5% en minnst jókst umferðin um Hafnarfjarðarveg sunnan Kópavogslækjar eða 3,7%.

Það sem af er ári milli 2014 og 2015
Nú hefur umferðin aukist um 4% frá áramótum m.v. sama tímabil á síðasta ári.  Er þessi aukning í góðu samræmi við hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands.  Þetta er heldur meiri aukning m.v. sama tíma á síðasta árin en þá hafði umferðin aukist um 3,3% m.v. árið þar á undan.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin hefur nú aukist alla vikudaga.  Mest hefur umferðin aukist á mánudögum eða 4,9% en minnst á föstudögum eða 2,7%.  Hlutfallslega hefur umferðin aukist um 3,5% frá föstudegi til sunnudags en 4,5% frá mánudegi til fimmtudags.  Þannig aukning í umferð er að stærstum hluta borin uppi af meiri umferð á virkum dögum, sem gefur vísbendingu um að meiri umferð stafi af auknum umsvifum í atvinnulífi.

Horfur út árið
Nú er útlit fyrir að umferðin aukist um 4,2% á milli ára, hegði hún sér líkt og í meðalári, það sem eftir lifir árs.  Gangi spá um aukningu eftir mun verða slegið nýtt met í heildarumferð yfir árið.


Umferðartalningar úr þremur teljurum á höfuðborgarsvæðinu má sjá í þessu .pdf skjali.