Fréttir
  • Umferð á höfuðborgarsvæðinu
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Umferðin eftir mánuðum

Minnsta aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu síðan 2011

umferðin jókst um 1,6 prósent

7.11.2019

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í október jókst um 1,6 prósent sem er minnsta aukning í þessum mánuði síðan árið 2011. Þetta er sama þróun og á sér stað á Hringveginum sbr. eldri frétt. Umferðin það sem af er ári hefur aukist um 1,2 prósent sem er einnig minnsta aukning síðan 2011.


Milli mánaða
Umferð yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,6% í nýliðnum mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin yfir mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða 3,1% en 1,0% samdráttur varð í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi. Meðaltalsaukning í október frá 2005 og til ársins 2018 var 3,2% þ.a.l. er núverandi aukning langt undir meðalþróun. Leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna minni aukningu umferðar um höfuðborgarsvæðið í októbermánuði.

Umferð eftir vikudögum
Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum mánuði, en minnst á sunnudögum.  Hlutfallslega jókst umferðin mest á laugardögum eða um 2,5% en minnst varð aukningin á mánudögum eða 0,6%.  Umferð jókst að meðaltali um 1,3% á virkum dögum en 2,1% um helgar.

Frá áramótum
Nú hefur umferðin, yfir mælisniðin þrjú, aukist um 1,2% frá áramótum. Þessi aukning er sú minnsta frá árinu 2011.

Horfur út árið
Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu er talið líklegast, vegna spáðs samdráttar í hagkerfinu, að lítil aukning verði í næstu tveim mánuðum og þá muni árið í heild koma út á um 1% aukningu. Þó að aukning verði má til gamans geta þess að íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 1,7% frá áramótum til októberbyrjunar og gæti staðan orðið um og yfir 2% heildaraukning í árslok.  Rannsóknir Vegagerðarinnar hafa sýnt fram á afar sterk tengsl á milli umferðar- og íbúaþróunar, enda ætti það svo sem að liggja nokkuð í augum uppi, þ.a.l. má færa fyrir því viss rök að um raunsamdrátt í umferð sé að ræða haldi umferðaraukning ekki í við íbúaþróun. 

Talnaefni