Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Metumferð árið 2022 á Hringvegi

Fyrra met frá árinu 2019 slegið

3.1.2023

Aldrei áður hefur meiri umferð mælst á Hringveginum en árið 2022, met ársins 2019 var slegið. Umferðin í fyrra reyndist einu og hálfu prósenti meiri en árið 2019. Mun minna var ekið í desember 2022 en árið áður og helgast líklega af veðuraðstæðum.

Milli mánaða 2021 og 2022
Ekki alveg óvænt, reyndist umferð í nýliðnum desember tæplega 3% minni en í sama mánuði árið 2021, svo ekki var slegið met í umferðinni þennan mánuðinn.  Má trúlega rekja þennan samdrátt að mestu til slæmrar færðar.

Samdráttur varð á öllum landssvæðum utan Vesturlands en þar jókst umferðin um 2,8%, miðað við sama mánuð 2021. Mest dróst umferð saman um Austurland eða um 7,5%.

Af einstaka talningarstöðum reyndist mesti samdrátturinn vera um Geitháls, í nágrenni höfuðborgarsvæðis, eða tæplega 10% samdráttur en mest jókst umferð við Hafnarfjall eða um 15%.   Það er eftirtektarvert að sjá svo miklar sveiflur í umferð í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem alla jafna ríkir meiri stöðugleiki en lengra úti á landi.

Samanburðartafla








Uppgjör, lykilteljara á Hringvegi, fyrir árið 2022
Fyrir árið 2022 í heild var mest ekið á Hringveginum á föstudögum en minnst á laugardögum.

16% af heildarumferð meðalvikunnar fór fram á föstudögum en 13% á laugardögum.  Umferð á miðvikudögum reyndist næst meðalumferð yfir vikuna. 

Niðurstaða þessa árs er óhefðbundin þar sem sem fyrri rannsóknir Vegagerðarinnar hafa sýnt að fimmtudagar hafa reynst næst meðaltali (utan þéttbýlis) og umferð á þriðjudögum hefur gjarnan verið minnst.  Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessari þróun, hvort einkenni umferðar (sem er afar stöðug stærð) séu varanlega að breytast og hverjar séu ástæður eða hvort um sé að ræða tilfallandi tilvik vegna óvenjulegs árs.

Umferðin, í heild, árið 2022 reyndist 3,6% meiri en umferðin um sömu mælisnið árið 2021.  Þetta er nýtt met, sem reyndist 1,5% stærra en fyrra met er frá árinu 2019.