Fréttir
  • Umferðin í júnímánuðum frá 2005
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Mesta umferð í júní, mesta umferðaraukning milli júní mánaða

metin í umferðinni falla hvert af öðru

14.7.2016

Umferðin á Hringveginum um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar jókst um tæp átta prósent frá sama mánuði fyrir ári síðan, sem er met. Umferðin í júní mánuði hefur aldrei áður mælst meiri á Hringveginum. Metin falla þannig hvert af öðru þessa mánuði og nú stefnir í að umferðin í ár geti aukist um heil 9,4 prósent sem væri algert aukningarmet milli ára.

Milli mánaða 2015 og 2016

Umferðin jókst um 7,8% í júní miðað við sama mánuð á síðasta ári um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum.  Umferðin hefur aldrei aukist jafn mikið milli júní mánaða frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. Umferðin hefur heldur aldrei mælst meiri í júní á Hringveginum. Að meðaltali fóru um 6.300 bílum meira á hverjum sólarhring í nýliðnum júní yfir mælisniðin 16 miðað við sama mánuð á síðasta ári.

Umferðin jókst mest um Austurland eða um tæp 28% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um tæp 5%.

Samanburdur-juni

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016

Umferðin hefur nú aukist um 13,6% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er met aukning miðað við árstíma, frá því að þessi samantekt hófst. 

Líkt og milli mánaða þá hefur umferðin aukist mest um Austurland eða tæp 33% en minnst hefur aukningin orðið við höfuðborgarsvæðið eða rúmlega 11%.

Umferð eftir vikudögum

Það sem af er ári hefur umferðin aukist mest á sunnudögum eða tæp 17% en minnst á föstudögum eða rétt rúmlega 10%.   Umferðin hefur að jafnaði verið mest á föstudögum en minnst á þriðjudögum.

Horfurnar í umferðinni út árið 2016

Nú er útlit fyrir að umferðin geti aukist um 9,4%, um lykilteljarana 16 á Hringvegi,  milli áranna 2015 og 2016.  Núverandi met var sett árið 2007 þegar umferðin jókst um 6,8% milli áranna 2006 og 2007.  Það stefnir því í að enn eitt metið geti fallið nú í ár ef umferðin hegðar sér líkt og undanfarin ár.  


Talnaefni