Fréttir
  • Malarslitlag er ekki bara drulla. Heilmikil vísindi eru þar að baki.
  • jarðfræðingur hjá stoðþjónustu Vegagerðarinnar,
  • verkefnastjóri á Vestursvæði Vegagerðarinnar.
  • Malarslitlag er efsta lag malarvega.
  • Malarvegir eru og verða hluti af vegakerfinu.

Malarvegir – margir og mikilvægir

Nýtt myndband um malarvegi er komið í loftið

22.7.2022

Vegakerfið í heild sinni er 12.910 km og þar af eru malarvegir 7.440 km. Í nýju myndbandi Vegagerðarinnar eru malarvegir til umfjöllunar. Farið er yfir ýmis atriði sem varða akstur og viðhald á slíkum vegum. Fram kemur að ávallt þarf að aka í samræmi við aðstæður, draga úr hraða og vera vakandi fyrir öllum umferðarmerkjum.

Malarvegir eru og verða hluti af vegakerfinu en það er gjörólíkt að aka á malarvegi og bundnu slitlagi, sem er ýmist klæðing eða malbik.

„Þegar ekið er um malarvegi þá er eins og alltaf mjög mikilvægt að það sé ekið í samræmi við aðstæður. Þegar við ökum um malarvegi þá höfum við ekki yfirborðsmerkingar. Þá er mikilvægt að fylgjast vel með öllum umferðarmerkjum því þau segja okkur um þær hættur sem eru framundan og hvað er framundan,“ segir Guðmundur Finnur Guðmundsson, verkefnastjóri á Vestursvæði Vegagerðarinnar, í myndbandinu.

Malarslitlag er efsta lag malarvega og hlutverk þess er að draga úr niðurbroti malarvega af völdum umferðar og veðurfars.

„Malarslitlag er ekki bara drulla. Það eru heilmikil vísindi þar á bak við. Malarslitlag er blanda af malarstærðum, sandstærðum og fínefnastærðum,“ segir Hafdís Eygló Jónsdóttir, jarðfræðingur hjá stoðþjónustu Vegagerðarinnar, í myndbandinu.  

 „Við þurfum stærri kornin, eins og mölina til að bera uppi umferðina og svo viljum við hafa fínefnin til að líma þetta allt saman. Öll fínefnin, silt og leir, við viljum að þau séu til staðar í veginum. Við viljum ekki að þau fljúgi út og búi til rykið,“ segir Hafdís og útskýrir að þess vegna sé nauðsynlegt að rykbinda og vökva vegina. 

„Malarslitlag á að tryggja vegfarendum akstursþægindi og öryggistilfinningu,“ segir hún en stór hluti malarvega landsins eru hálendisvegir, fjallvegir yfir fjöll og heiðar, landsvegir og héraðsvegir.

Hér má sjá myndbandið:

https://www.youtube.com/watch?v=5MrXKPardo8