Fréttir
  • Slöngubátur er notaður til að ýta prammanum á réttan stað.
  • Borinn er notaður til að kanna gerð setlaga í botni hafna og fjarða þar sem stendur til að framkvæma.
  • Borró-pramminn tekur nafn sitt frá höggbornum sem hann er útbúinn með.
  • Borró-pramminn tekur nafn sitt frá höggbornum sem hann er útbúinn með.
  • Borró-pramminn tekur nafn sitt frá höggbornum sem hann er útbúinn með.

Mælir setlög í sjó

Borró-pramminn er notaður við rannsóknir til að undirbúa framkvæmdir í höfnum og fjörðum.

19.5.2021

Sérsmíðaður prammi með höggbor er notaður til að mæla lagskiptingu jarðlaga og dýpi á klöpp í höfnum og fjörðum þar sem framkvæmdir standa fyrir dyrum. Stjórnandi prammans og borsins er Friðrik Þór Halldórsson rannsóknarmaður á hafnadeild Vegagerðarinnar.

Pramminn gengur iðulega undir nafninu Borró-pramminn og tekur nafn sitt frá höggbornum sem hann er útbúinn með, en slíkir borar eru oft nefndir Borróborar þar sem þeir voru á árum áður keyptir frá fyrirtækinu Borros og nafnið festist.

Pramminn var teiknaður af Ingvari Engilbertssyni og Birgi Tómasi Arnar hjá Siglingastofnun í kringum aldamótin síðustu. Pramminn er samsettur úr tveimur gámaeiningum, er 5x6 metrar að stærð og í honum miðjum er 1x1 metra gat sem borinn fer í gegnum.

„Borinn er notaður til að kanna gerð setlaga í botni hafna og fjarða þar sem stendur til að framkvæma og mæla hversu langt er niður á fast,“ útskýrir Friðrik en slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir hönnuði við undirbúning hönnunargagna fyrir útboð. „Í höfnum er botninn kannaður til dæmis þegar stækka á stálþilskanta. Þá þarf að vita hversu öflug og löng stálþil þarf að nota og hvernig best sé að berja þau niður. Þegar þvera á firði er einnig mikilvægt þekkja setlögin til að vita hversu mikið farg þarf að setja á sjávarbotninn og hversu lengi það þarf að bíða þar til hægt er að leggja veginn.“

Verkefni Friðriks ráðast af fyrirmælum frá hönnuðum sem biðja um mælingar á vissum stöðum. Hann fær uppgefna GPS punkta og kemur prammanum eins nálægt þeim og mögulegt er. „Pramminn er fluttur á staðinn á flutningabíl, en auðvelt er að taka hann í sundur. Við notum slöngubát til að ýta honum á réttan stað og síðan er pramminn strekktur með akkeri í sitt hvora áttina til að hann færist ekki úr stað,“ lýsir Friðrik. Hann segist ekki gera miklar kröfur til veðurs, lítið mál sé að mæla í rigningu, snjókomu eða frosti. Hins vegar mega ekki vera öldur því þá skekkist mælingin. Hann segir hverja mælingu taka mislangan tíma, allt frá tíu mínútum upp í tvo klukkutíma eftir því hversu djúpt er niður á botn.

„Mælingin fer þannig fram að ég þrýsti bornum sem er 35 mm að breidd í gegnum silt, sand og möl. Borinn sendir upplýsingar sem síðan fara til hönnuða,“ lýsir Friðrik en hann tekur einnig sýni þegar eftir því er óskað.

Friðrik var að klára verkefni í Reykhólahöfn þar sem  lengja á stálþil, en í haust fór hann til mælinga í Þorskafirði sem nú  er búið að bjóða út og verktakinn hefur hafist handa. Næst heldur hann í Gufufjörð og Djúpafjörð vegna þverunar fjarðanna fyrir hinn nýja Vestfjarðaveg (60) um Teigsskóg.

Friðrik hefur ekki verið í þessu starfi lengi, byrjaði í september í fyrra en var áður á rekstrardeild Vegagerðarinnar. Hann er þó ekki óvanur störfum á sjó. „Ég starfaði á dýpkunarpramma í Noregi þar sem verið var að bora og sprengja fyrir höfnum og siglingaleiðum. Þetta eru því kunnuglegar aðstæður þó margt hafi verið alveg nýtt fyrir mér,“ segir Friðrik sem er þó aldrei einn á ferð heldur hefur alltaf með sér mann til aðstoðar. Verkefnin eru næg og því þarf að nýta veturinn líka þó veðrið geti verið rysjótt. „Þetta hefur alveg sloppið til en ég er mjög spenntur að prófa að vinna við þetta í sumar í sól og góðu veðri,“ segir Friðrik glettinn.

Þessi grein birtist í 3. tbl Framkvæmdafrétta.  Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.