Fréttir
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti
  • Ljósaskilti

Ljósaskilti skapa hættu í umferðinni

Vegagerðin leggst  gegn slíkum skiltum

12.12.2017

Í auknum mæli hafa verið sett upp ljósaskilti, LED-skilti við fjölfarnar umferðargötur á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Skiltin eru sett upp utan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar sem heimilar ekki slík skilti. Ljósaskiltin geta verið mjög áberandi og þar af leiðandi truflandi því tilgangur þeirra er að fanga athygli vegfarenda. Víða eru skiltin við hraðar umferðargötur og skapa því töluverða hættu.

Nær öll þessara skilta eru utan skilgreinds veghelgunarsvæðis. Skipulags- og byggingarreglugerð sem eru á verksviði sveitarfélaga fjallar m.a. um auglýsingar.1 Umrædd skilti eru af þeirri gerð að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir uppsetningu þeirra. Með hliðsjón af ofangreindu telur Vegagerðin eðlilegt að leitað sé umsagnar hennar áður en leyfi er veitt fyrir uppsetningu slíkra skilta. Það hefur ekki verið gert.

Í vegalögum nr 50/2007 er 32. grein umferðarlaga um fjarlægð mannvirkja frá vegi segir:
„Byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til.  Óheimilt er að reisa mannvirki nema með leyfi veghaldara við vegamót vega skv. 1. mgr. á svæði sem takmarkast af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Veghaldari getur ef sérstaklega stendur á fært út mörk þessi, allt að 150 m.
Veghaldari getur ákveðið að fjarlægð mannvirkja frá vegi skv. 1. mgr. skuli aukin. Enn fremur getur veghaldari leyft að fjarlægð verði minnkuð á tilteknum köflum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Vegagerðin hefur áhyggjur af að LED-skiltin eða ljósdíóðuskiltin skerði mjög öryggi vegfarenda þar sem þau fanga athygli þeirra enn meir en fyrri skilti vegna ljósmagns og breytileika. Skiltin eru mörg sett upp við vegi þar sem umferðarhraði er mikill og sum hver að auki við umferðarmikil vegamót.

Í nýlegri skýrslu „Visuel distraktion fra lysreklamer langs veje“ 2  sem unnin var fyrir NMF (Nordiskt Möte för Förbättrad vägutrustning) í mars 2017 kemur fram að auglýsingar meðfram vegum, og sérlega þær sem eru meira krefjandi eins og ljósdíóðuskiltaauglýsingar, keppa um athygli bílstjóra og hafa það mikil áhrif á bílstjóra að umferðaröryggi skerðist.

Vegagerðin leggst gegn uppsetningu auglýsingaskilta sem beint er að vegfarendum og geta haft neikvæð áhrif á öryggi vegfarenda.

Af þessu tilefni hefur Vegagerðin sent bréf til sveitarfélaga sem bera ábyrgð á leyfisveitingunum til að gera þeim grein fyrir niðurstöðum rannsókna og afstöðu Vegagerðarinnar varðandi umrædd auglýsingaskilti. Vegagerðin mun væntanlega í kjölfarið þurfa að meta hvort og þá hvernig bregðast eigi við skertu umferðaröryggi á þeim stöðum þar sem slík skilti hafa þegar verið sett upp.

Dæmi um staði þar sem ljósdíóðuskilti hafa þegar verið sett upp

·         Í Reykjavík á húsgafli á Höfðabakka við Stórhöfða

·         Á húsgafli á mótum Grensásvegar og Miklubrautar

·         Í Hafnarfirði við Hafnarfjarðarveg/Flatahraun á Kaplakrika

·         Við Hafnarfjarðarveg, Smárann í Kópavogi

·         Við austanverða Reykjanesbraut norðan verslunarkjarnans í Lindum

·         Við Reykjanesbraut uppi á húsbyggingum í Mjódd.

·         Í Vesturmýri í Garðabæ

·         Á hótelbyggingu við Ölfusárbrú á Selfossi.(1) Skipulagsreglugerð nr. 90/2013, deiliskipulag grein 5.3.2.3 og 5.3.2.4 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 kafli 2.5. Utan þéttbýlis: lög um náttúruvernd nr. 60/2013, er 72. grein um auglýsingar utan þéttbýlis og reglugerð nr. 941/2011 tekur til auglýsinga meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis.

(2) Visuel distraktion fra lysreklamer langs veje