Fréttir
  • Kantljós eru tákn nýrra tíma og er að finna í flestum nýjum jarðgöngum.
  • Þó nokkur umferð er um göngin alla nóttina og ekki allir sem virða hraðatakmarkanir.
  • Þessa dagana er verktakinn að fræsa rauf í steypta stéttina meðfram akbrautinni en í hana er lagður rafstrengur fyrir ljósin.
  • Þessa dagana er verktakinn að fræsa rauf í steypta stéttina meðfram akbrautinni en í hana er lagður rafstrengur fyrir ljósin.
  • LED ljósin koma í stað vegstika í göngunum.

Ökumenn sýni meiri tillitsemi í Hvalfjarðargöngum

Verktaki setur upp kantlýsingu á nóttunni

17.9.2020

Unnið er að uppsetningu kantljósa í Hvalfjarðargöngum frá klukkan tíu á kvöldin til hálf sjö á morgnana. Þó nokkur umferð er um göngin á næturna en allt of oft vill brenna við að ökumenn sýni ekki nægilega aðgát í kringum vinnusvæðin. Vegfarendur eru beðnir að sýna tillitsemi meðan á verkinu stendur.

„Kantljós eru tákn nýrra tíma og er að finna í flestum nýjum jarðgöngum,“ segir Jóhann B. Skúlason yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði. Uppsetning kantljósanna var boðin út í vor, Orkuvirki bauð lægst og vinnur því verkið. „Þessa dagana er verktakinn að fræsa rauf í steypta stéttina meðfram akbrautinni en í hana er lagður rafstrengur fyrir ljósin,“ útskýrir Jóhann en ljósin eru sett niður með 25 metra millibili.

Jóhann segir LED ljósin hafa gefið góða raun í öðrum göngum og komi í stað vegstika í Hvalfjarðargöngunum. Þetta sparar bæði tíma og fyrirhöfn því þrífa þurfti vegstikur mánaðarlega með sérstökum vélum í göngunum. Ljósin bæta einnig öryggi og gagnast líka sem rýmingarlýsing ef reykur kemur í göngin.

Starfsmenn Orkuvirkis vinna að gerð kantlýsingarinnar á nóttunni en unnið er frá klukkan 22 á kvöldin til klukkan 6.30 á morgnana.

„Þarna eru í kringum sex til átta manns að vinna á hverri nóttu. Loka þarf einni akrein í senn á 200 til 300 metra kafla. Sett eru upp umferðarmerki og umferðinni stýrt með ljósamerkjakerru.“

Þrátt fyrir að unnið sé að nóttu er umferðin um göngin nokkuð þung. „Almennt er mikil umferð fram yfir klukkan 1 og margir stórir flutningabílar aka um göngin alla nóttina,“ segir Jóhann og bætir við að allt of oft sýni ökumenn ekki nægilega tillitsemi í kringum vinnusvæðið. „Ökumenn eru varaðir við með blikkandi ljósum við gangamunnana. Vinnusvæðin eru vel merkt. Hraðinn er tekinn niður í 50 í göngunum og niður í 30 í kringum vinnusvæðið, en menn slá lítið af. Þetta getur verið hættulegt.“

Vegfarendur eru beðnir um að fara varlega í göngunum meðan á vinnunni stendur en áætluð verklok eru 15. október.