Fréttir
  • Brúin yfir Steinavötn
  • Brúin yfir Steinavötn
  • Brúin yfir Steinavötn
  • Brúin yfir Steinavötn
  • Steinavötn loftmynd
  • Brúin yfir Steinavötn

Vinna við bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í fullum gangi

Hringvegurinn lokaður á tveimur stöðum

29.9.2017

Byggja þarf bráðabirgðabrú yfir Steinavötn en grafið hefur undan einum stöpli brúarinnar í vatnavöxtum síðustu daga. Brúin er 102 m löng og byggja þarf svipað langa brú. Reikna má með að það taki að minnsta kosti eina viku ef allt gengur að óskum. Unnið er að undirbúningi og Vegagerðarmenn mæta strax á verkstað í kvöld, föstudagskvöld.

Brúin er komin til ára sinna en hún var byggð 1961-62 og er því 55 ára gömul. Nú þegar er byrjað að veita vatni frá laskaða stöplinum. Keyrt verður grjót að öðrum stöplum. Vatn hefur minnkað, en einhver rigning hefur verið dag og spáð rigningu í nótt. Nú þegar er búið að senda mælingamenn og undirbúa vegalagningu að nýrri bráðabirgðabrú.

Þá er vinna við undirbúning að byggingu bráðabirgðabrúar í fullum gangi og hófst strax í gær. Brúin verður með svipuðu sniði og bráðabirgðabrúin yfir Múlakvísl. Búið er að fara yfir það efni sem þarf í brúna og búið að fá niðurrekstrarstaura frá RARIK sem koma á verkstað í kvöld. Krani Vegagerðarinnar til að reka niður staurana er lagður af stað og starfsmenn brúarvinnuflokkanna koma á verkstað í kvöld. Þá hefur brúarvinnuflokkurinn í  Vík hefur verið að vinna í dag við að smíða timburfleka á Selfossi.

Stefnt að því að hefja niðurrekstur á staurum eftir hádegi á morgun, laugardag.

Þannig að vinna er í fullum gangi og hefur verið frá því að ljóst varð að brúin yfir Steinavötn er ekki lengur fær neinum bílum. 

Staðan við Hamarsá er sú að vatn er enn mikið og ekki verður hægt að opna í dag. Ef vel sjatnar í ánni og vel gengur er hugsanlegt að hægt verði að opna veginn á morgun eða hugsanleg á sunnudag. Rjúfa þurfti veginn á þremur stöðum eftir að varnargarðar gáfu sig. Byggja þarf þá upp aftur og fylla upp í þar sem vegurinn var rofinn, en það verk er reyndar þegar hafið. Eins er unnið við varnargarðana eftir því sem vatn leyfir.

Á loftmyndinni sést að áin hefur lagst í að vera vestanstæð og þannig hefur vatnið runnið nokkuð þvert á stöpulinn sem grafist hefur undan.