Fréttir
  • Herjólfur nýi leggst að bryggju í Friðarhöfn.
  • Umfjöllun Shippax

Hönnun Herjólfs verðlaunuð

Hönnun Herjólfs hlýtur Shippax verðlaun í flokki minni ferja

20.7.2020

Hönnun Herjólfs hins nýja hlýtur Shippax verðlaunin fyrir hönnun minni ferja. Vakin er athygli á því að hönnun skili sér í skipi sem auðvelt sé að stjórna við mjög erfiðar aðstæður gegn opnu hafi og í siglingu inn í grunna Landeyjahöfn þar sem búast megi við háum öldum og hröðum straumum. Afhenda átti verðlaunin á ráðstefnu í apríl en það frestast fram í september vegna Covid-19.

Það er Jóhannes Jóhannesson hjá JJohannesson ApS sem hlýtur hönnunarverðlaunin ásamt skipasmíðastöðinni CRIST S.A. í Póllandi og Vegagerðinni sem eiganda Herjólfs. Shippax tímaritið sem veitir verðlaunin er tímarit sem sérhæfir sig í umfjöllun um ferjur, skemmtiferðaskip og bílferja. 

Það er mjög ánægjulegt að hönnun Herjólfs hljóti þessi verðlaun enda hefur ferjan reynst mjög vel í siglingum milli lands og Eyja. Einnig hefur hún reynst vel á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar þótt hún hafi sérstaklega verið hönnuð til að sigla í Landeyjahöfn þá hefur hún reynst betra sjóskip á lengri leiðinni en gamli Herjólfur III.

Einnig er bent á það við úthlutun verðlaunanna að Herjólfur mun sigla alfarið með rafmagni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja þótt lagt hafi verið upp með annað. Þetta sé fyrsta ferjan sem siglir með 3MWh rafhlöðum fyrir opnu hafi en hingað til hafi sú aðferðafræði verið notuð á styttri leiðum með mun rólegra sjólagi en Íslendingar eiga að venjast. Einnig er það auðvitað talin kostur að raforkan á Íslandi er græn orka.

Vegagerðin óskar Jóhannesi til hamingju með verðlaunin sem og pólsku skipasmíðastöðinni.